Franski miðvörðurinn Wesley Fofana hefur síðasta árið verið að ganga í gegnum erfið meiðsli en hann varð fyrir enn einu áfallinu í dag er hann fór meiddur af velli í æfingaleik með Chelsea.
Fofana þvingaði í gegn sölu frá Leicester í sumar og fékk það í gegn fyrir rest.
Hann skrifaði undir hjá Chelsea en dvöl hans þar hefur ekki gengið áfallalaust fyrir sig.
Frakkinn meiddist á hné í leik gegn AC Milan í október en þau meiðsli héldu honum frá fram að heimsmeistaramótinu í Katar.
Fofana hefur hægt og rólega verið að koma til baka og spilaði hann æfingaleik fyrir luktum dyrum í dag gegn Brentford en meiddist aftur á hné. Fofana mun fara í frekari skoðanir á morgun.
Þetta ár hefur verið hreinasta hörmung fyrir leikmanninn sem var frá stóran hluta síðasta tímabils eftir að hann fótbrotnaði á undirbúningstímabilinu með Leicester.
Athugasemdir