
Það er hin tékkneska Jana Adámková sem dæmir leik Íslands gegn Sviss í Þjóðadeildinni í kvöld. Leikið verður á Stadion Letzigrund í Zurich og hefst leikurinn klukkan 18:00. Jana Adámková hefur mikla reynslu af stórmótum og í Meistaradeildinni.
Íslendingar muna líklega mest eftir henni á EM í Englandi 2022. Hún dæmdi síðasta leik Íslands í riðlinum gegn Frökkum.
Ísland var undir þegar 100 mínútur voru komnar á klukkuna en þá fór Jana í VAR skjáinn og tók ákvörðun um að dæma víti á Frakka. Dagný Brynjarsdóttir fór á punktinn og skoraði, 1 - 1 og í kjölfarið var flautað af.
Hún er 47 ára gömul og það er reyndar enn styttra síðan hún dæmdi leik hjá Íslandi því hún dæmdi vináttuleikinn við Dani á Pinatar í desember síðastliðnum.
Athugasemdir