Villa í slaginn um Calvert-Lewin - Newcastle býst við tilboði frá Liverpool - Man Utd blandar sér í baráttuna um Kolo Muani
   fös 21. febrúar 2025 18:30
Brynjar Ingi Erluson
Ingi Þór vill fara frá ÍA - Nokkur félög áhugasöm
Ingi Þór Sigurðsson í leik með ÍA
Ingi Þór Sigurðsson í leik með ÍA
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ingi Þór Sigurðsson, leikmaður ÍA á Akranesi, hefur óskað eftir því að yfirgefa félagið og er áhuginn mikill á þessum efnilega Skagamanni, en þetta herma heimildir Fótbolta.net.

Ingi er tvítugur og alla tíð spilað með ÍA en hann á að baki 49 leiki í efstu deild og skorað sjö mörk ásamt því að hafa lagt upp fimm mörk.

Hann átti þátt í að koma liðinu upp úr Lengjudeildinni sumarið 2023 og skoraði síðan tvö mörk er ÍA hafnaði í 5. sæti Bestu deildarinnar á síðustu leiktíð.

Á síðasta ári framlengdi Ingi samning sinn við ÍA út 2026, en hann gæti nú verið á förum tæpu ári eftir að hafa framlengt.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net hefur Ingi óskað eftir því að yfirgefa félagið. Ekki er ljóst hvar hann mun spila á komandi tímabili, en þónokkur áhugi er á leikmanninum.

Ingi kemur úr mikilli fótboltafjölskyldu. Arnór Sigurðsson er eldri bróðir hans, en hann spilar með Malmö og er þá fastamaður í landsliðinu. Sunna Rún er systir þeirra en hún hefur verið að spila stóra rullu í liði ÍA þrátt fyrir ungan aldur. Sigurður Þór Sigursteinsson og Margrét Ákadóttir, foreldrar þeirra, eiga þá samanlagt 268 leiki fyrir meistaraflokk ÍA.
Athugasemdir
banner
banner