
Það var létt yfir Cecilíu Rán á æfingu Íslands í gær. Hún hefur verið frábær með Inter í vetur en á hún séns á byrjunarliðssætinu í landsliðinu?
Þorsteinn Halldórsson landsliðsþjálfari Íslands neitaði að gefa upp hver mun verja mark íslenska landsliðsins gegn Sviss í Þjóðadeildinni í kvöld þegar Fótbolti.net gekk á hann með það á æfingu liðsins í gær.
Fanney Inga Birkisdóttir (6) og Telma Ívarsdóttir (2) spiluðu keppnisleiki Íslands á síðasta ári en Cecilía Rán Rúnarsdóttir hafði glímt við meiðsli.
Þær þrjár skiptu svo með sér æfingaleikjum vetrarins en nokkuð hefur breyst hjá þeim öllum. Cecilía Rán náði fullum bata af meiðslunum og hefur verið frábær með Inter Milan á Ítalíu, Fanney Inga var seld frá Val til Hacken í Svíþjóð á metupphæð í lok október og í síðasta mánuði gekk Telma í raðir Rangers í Skotlandi.
Aðspurður hvort það yrði ekki vandasamt fyrir hann að velja markvörð fyrir leikinn í kvöld sagði Þorsteinn:
„Jú auðvitað, við erum með þrjá góða markmenn og auðvitað er það lúxusvandamál sem er skemmtilegra að eiga við frekar en að vera í óöryggi með þá," sagði hann.
„Það er gott fyrir okkur að eiga góða markmenn sem eru að komast á hærri stall og komast í ennþá betra umhverfi. Þó umhverfið þeirra heima hafi verið gott þá eru þær komnar í atvinnumannaumhverfi sem er aðeins öðruvísi og hjálpar þeim að taka ennþá stærri skref og verða ennþá betri fyrir okkur."
Athugasemdir