Brasilíski sóknarleikmaðurinn Matheus Cunha hefur fengið einn auka leik í leikbann eftir að hafa látið reka sig af velli í framlengingu enska bikarsins gegn Bournemouth um síðustu mánaðamót.
Cunha lenti upp á kant við Milos Kerkez á lokamínútum framlengingarinnar og fékk að lokum rautt spjald fyrir sinn þátt í átökunum, á meðan Kerkez fékk að líta gult spjald.
Leikmaðurinn var dæmdur í sjálfkrafa þriggja leikja bann fyrir hegðun sína en nú hefur enska fótboltasambandið bætt einum leik við bannið eftir að hafa skoðað upptökur, auk þess að sekta hann um 50 þúsund pund.
Cunha var ekki með í síðustu leikjum gegn Everton og Southampton og missir einnig af mikilvægum leikjum gegn West Ham og Ipswich Town í fallbaráttunni. Hann getur næst tekið þátt þegar Wolves fær Tottenham í heimsókn 13. apríl.
Cunha hefur verið að glíma við agavandamál á tímabilinu og er þetta í annað sinn sem hann er dæmdur í leikbann.
Athugasemdir