Trent efstur á blaði Real - Newcastle vill Mbeumo - Arsenal hefur áhuga á Kudus
   mið 21. ágúst 2024 13:44
Sæbjörn Þór Þórbergsson Steinke
Mjög sýnd veiði en tvær staðreyndir sem gætu hrætt Víkinga
Mikið í húfi hjá Víkingi.
Mikið í húfi hjá Víkingi.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi, á vellinum í Andorra.
Kári Árnason, yfirmaður fótboltamála hjá Víkingi, á vellinum í Andorra.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Víkingur sigraði Flora Tallinn í síðustu umferð.
Víkingur sigraði Flora Tallinn í síðustu umferð.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Á morgun tekur Víkingur á móti UE Santa Coloma frá Andorra í fyrri leik liðanna i umspilinu um sæti í Sambandsdeildinni. Liðin mætast svo viku síðar í Andorra. Spilað er um sæti í sjálfri Sambandsdeildinni, háar fjárhæðir eru í boði og sex Evrópuleikir til viðbótar.

Sigurlíkur Víkings í einvíginu eru miklar, veðbankar hafa ekki mikla trú á UE Santa Coloma á Víkingsvelli á morgun. UE Santa Coloma hefur spilað 22 Evrópuleiki en einungis einn þeirra hefur unnist. Það var útileikur liðsins gegn meisturunum frá Kósovó, Ballkani, í fyrstu umferð forkeppninnar í Meistaradeildinni á þessu ári. Það einvígi fór alla leið í vítaspyrnukeppni þar sem meistararnir frá Andorra höfðu betur.

Í 2. umferð forkeppninnar í Sambandsdeildinni tapaði liðið samanlagt 0-4 á móti Elíasi Rafni Ólafssyni og hans félögum í Midtjylland og í 3. umferð forkeppninnar í Evrópudeildinni tapaði liðið samanlagt 0-9 gegn lettnesku meisturunum í RFS.

Fyrir utan sigurinn gegn Ballkani þá eru tvær staðreyndir sem gætu hrætt Víkinga fyrir komandi einvígi.

Fyrri staðreyndin er sú að í þremur heimaleikjum Víkings í Evrópu þetta sumarið hefur liðið einungis skorað eitt mark. Tveir leikir hafa tapast og einn endað með jafntefli.

Hin staðreyndin er sú að heimaleikur UE Santa Coloma fer fram á þjóðarleikvanginum, Estadi Nacional. Eini tapleikur íslensks félagsliðs í Andorra var á þeim velli. Íslensk félagslið hafa spilað þrjá leiki í Andorra á síðustu árum og einungis unnið einn þeirra.

Það eru tvö félög sem heita Santa Coloma, annað er UE Santa Coloma og hitt er FC Santa Coloma. Íslensk félög hafa mætt UE Santa Coloma og FC Santa Coloma í Evrópukeppnum síðustu ár. Breiðablik hefur mætt báðum liðum og vann liðið báða leikina gegn UE Santa Coloma sumarið 2022. Útisigurinn var torsóttur, Ísak Snær Þorvaldsson skoraði eina markið í þeim leik, en heimaleikurinn var svo auðveldari.

Breiðablik mætti FC Santa Coloma sumarið 2013 og gerði þá jafntefli í útileiknum og sigraði heimaleikinn. Valur mætti svo FC Santa Coloma sumarið 2018, Valur tapaði útileiknum 1-0 á Estadi Nacional en vann á Hlíðarenda 3-0 og fór því áfram í næstu umferð. Báðir leikir Breiðabliks í Andorra fóru fram á Estadi Comunal.

Víkingur mætti Inter Club dEscaldes frá Andorra í undankeppni forkeppninnar í Meistaradeildinni árið 2022. Víkingur vann 1-0 sigur á Víkingsvelli og tryggði sér með því einvígi gegn Malmö í 1. umferð forkeppninnar.

Íslenska landsliðið vann á Estadi Nacional árið 2019. Það voru þeir Birkir Bjarnason og Viðar Örn Kjartansson sem sáu til þess að Ísland vann 0-2 útisigur. Þrír leikmenn í UE Santa Coloma voru í síðasta landsliðshópi Andorra.
Athugasemdir
banner
banner
banner