Trent efstur á blaði Real - Newcastle vill Mbeumo - Arsenal hefur áhuga á Kudus
   mið 21. ágúst 2024 13:31
Elvar Geir Magnússon
Víkingur mun ekki fara í riðlakeppni í Sambandsdeildinni
Deildarkeppni tekin við í Evrópukeppnunum þremur
Víkingur er í dauðafæri á að komast í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar.
Víkingur er í dauðafæri á að komast í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: EPA
Höfuðstöðvar UEFA í Nyon.
Höfuðstöðvar UEFA í Nyon.
Mynd: EPA
Ef Víkingur kemst í Sambandsdeildina munu Íslandsmeistararnir ekki fara í riðlakeppni heldur deildarkeppni. Búið er að breyta fyrirkomulaginu í Evrópukeppnunum.

Búið er að leggja niður riðlakeppnina og í stað hennar er komin sérstök deildarkeppni. Gjörbreyting á fyrirkomulaginu.

Í hverri Evrópukeppni eru 36 lið sem komast í lokakeppnina og raðast á eina deildartöflu, þrjú stig fyrir sigur og eitt fyrir jafntefli eins og við þekkjum, og af þessum 36 liðum eru 24 sem fara í útsláttarkeppni.

Í Sambandsdeildinni keppir hvert lið sex leiki á móti sex mismunandi andstæðingum (í Meistaradeildinni og Evrópudeildinni eru leikirnir átta). Hvert lið fær þrjá heimaleiki og þrjá útileiki.

Andstæðingarnir koma úr mismunandi styrkleikaflokkum og eru ákveðnir með drætti. Í Sambandsdeildinni er liðunum raðað upp í sex styrkleikaflokka.

Ef Víkingur kemst í deildina fær liðið sem dæmi einn andstæðing á heimavelli og annan á útivelli úr tveimur sterkustu pottunum og svona gengur þetta niður. Með þessu fyrirkomulagi ætti leikjaplanið að vera nokkuð sanngjarnt.


Að deildarkeppninni lokinni munu liðin í 1. - 8. sæti fara beint í 16-liða úrslit. Liðin í 9. - 24. sæti fara í tveggja leikja umspil um sæti í 16-liða úrslitunum. Liðin sem enda í neðar í deildinni falla úr leik.

Spennandi verður að sjá hvernig þetta nýja fyrirkomulag mun leggjast í fótboltaáhugamenn sem eru margir þeirrar skoðunar að riðlakeppnin hafi verið orðin þreytt.

Þeir, ásamt okkur íþróttafréttamönnum, þurfa líka að venja sig á því að hætta að tala um riðlakeppni heldur deildarkeppni þegar kemur að Evrópukeppnunum.

Víkingur mun á morgun leika fyrri leik sinn gegn Santa Coloma frá Andorra í umspili um sæti í deildarkeppni Sambandsdeildarinnar.
Athugasemdir
banner
banner
banner