Nico O'Reilly hefur komið gríðarlega öflugur inn í liðið hjá Manchester City og er búinn að vinna sér inn nýjan samning við félagið, með vænri launahækkun.
Hann hafði komið við sögu í nokkrum leikjum á tímabilinu þegar Pep Guardiola setti hann í byrjunarliðið gegn Plymouth Argyle í FA bikarnum. Þar skoraði O'Reilly tvennu spilandi sem vinstri bakvörður eftir að hafa einnig skorað í leiknum á undan, 8-0 stórsigri gegn Salford City, spilandi sem miðvörður.
O'Reilly er 20 ára gamall og leikur sem sókndjarfur miðjumaður að upplagi, en er gríðarlega fjölhæfur fótboltamaður og verður afar spennandi að fylgjast með framþróun hans hjá Man City.
Pep Guardiola hefur gríðarlega miklar mætur á O'Reilly sem átti aftur stórleik í FA bikarnum þegar Man City sigraði á útivelli gegn Bournemouth. Í þetta skiptið átti leikmaðurinn ungi tvær stoðsendingar í 1-2 sigri.
O'Reilly hefur síðan þá fengið stærra hlutverk með aðalliði City og er búinn að byrja síðustu fjóra úrvalsdeildarleiki í röð.
Búist er við að samningurinn verði staðfestur opinberlega á næstu dögum eða vikum.
Athugasemdir