Smith Rowe og Nelson á förum - Chelsea náði samkomulagi við Aston Villa - Úrvalsdeildarfélög keppast um Abraham - Arsenal vill Nico Williams -...
   mið 22. maí 2024 18:30
Ívan Guðjón Baldursson
Æfingaleikur: Newcastle vann gegn Tottenham eftir vítaspyrnur
Mynd: EPA
Mynd: Getty Images
Newcastle 1 - 1 Tottenham
0-1 James Maddison ('32)
1-1 Alexander Isak ('45)
5-4 í vítaspyrnukeppni

Newcastle og Tottenham flugu til Ástralíu eftir lokaumferð enska úrvalsdeildartímabilsins og mættust liðin í æfingaleik í Melbourne í dag.

Þrátt fyrir þreytu leikmanna eftir langt og strangt tímabil þá bauð leikurinn í Melbourne upp á góða skemmtun, þar sem James Maddison tók forystuna fyrir Tottenham áður en Alexander Isak jafnaði skömmu fyrir leikhlé.

Eftir að liðin gerðu 1-1 jafntefli var flautað til vítaspyrnukeppni, sem virtist koma leikmönnum á óvart. Þar hafði Newcastle betur eftir að Bryan Gil klúðraði fyrstu spyrnunni í vítakeppninni og allir aðrir leikmenn skoruðu.

„Þetta var fínn leikur. Fyrri hálfleikurinn var góður en í seinni hálfleik virkaði þetta meira eins og vináttuleikur," sagði Ange Postecoglou, þjálfari Tottenham sem er ástralskur.

Postecoglou og Eddie Howe gerðu aðeins þrjár breytingar á byrjunarliðum sínum sem unnu í lokaumferð úrvalsdeildarinnar um helgina.

Tottenham flaug til Ástralíu til að spila þennan eina leik og eru leikmenn liðsins komnir í frí. Newcastle spilar við stjörnulið áströlsku A-deildarinnar næsta föstudag og verður það síðasti leikurinn fyrir sumarfrí.
Athugasemdir
banner
banner