Man Utd skoðar það að fá Tuchel - Postecoglou fær fjármagn í sumar - Greenwood eftirstóttur á Englandi
   þri 22. september 2020 20:55
Fótbolti.net
Einkunnagjöf Íslands: Sara best
Icelandair
Sara Björk var öflug á íslensku miðjunni
Sara Björk var öflug á íslensku miðjunni
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ísland gerði 1-1 jafntefli við Svíþjóð í undankeppni EM20. Leikurinn var jafn og spennandi og íslenska liðið stóð sig vel gegn fimmta besta liði heims. Bæði lið eru með 13 stig eftir 5 leiki en Svíar með fjórum mörkum betri markatölu.

Sandra Sigurðardóttir 7
Átti nokkrar mjög góðar vörslur bæði í fyrri og seinni hálfleik. Var mjög örugg í flestum aðgerðum og stóð sig vel.

Gunnhildur Yrsa Jónsdóttir 6
Átti í örlitlum vandræðum varnarlega í fyrri hálfleik en tók mikinn þátt í sóknarleiknum. Náði þó ekki að skapa mikið fram á við. Fór minna fyrir henni bæði varnarlega og sóknarlega í seinni hálfleik.

Glódís Perla Viggósdóttir 7
Það virtist upplegg Svía að loka á hana og löngu sendingarnar og því tók hún minna þátt í spilinu fram á við heldur en oft áður. Sýndi annars flotta baráttu og var sterk varnarlega.

Ingibjörg Sigurðardóttir 6
Var heilt yfir sterk varnarlega en ekki nógu ákveðin í marki Svíþjóðar. Virtist vera smá samskiptaleysi milli hennar og Glódísar. Sendingarnarnar úr vörninni voru oft á tíðum ekki alveg nógu góðar.

Hallbera Gísladóttir 6
Átti nokkrar stórhættulegar hornspyrnur, eins og alltaf. Var nokkrum sinnum í vandræðum varnarlega, sérstaklega í marki Svía en átti heilt yfir ágætan leik.

Sara Björk 9 - Maður leiksins
Algjör leiðtogi inni á vellinum og stjórnaði liðsfélögum sínum vel. Mjög áberandi í baráttu, stjórnaði spilinu inn á miðjunni og lét boltann ganga vel. Skorar frábært mark sem var því miður ekki löglegt að mati Ivönu.

Alexandra Jóhannsdóttir 7
Fór ekki mikið fyrir henni en var mjög vinnusöm og öflug í baráttunni.

Dagný Brynjarsdóttir 7
Virkilega vinnusöm eins og hinar á miðjunni. Var mjög sterk í loftinu og skilaði sínu hlutverki vel.

Karólína Lea Vilhjálmsdóttir 7
Áræðin. Stóðst prófið. Átti nokkrar góðar rispur upp hægra megin. Dró aðeins af henni þegar á leið en stóð sig vel.

Sveindís Jane Jónsdóttir 8
Sást minna í fyrri hálfleik en var frábær í seinni hálfleik, virkilega góð innkoma inn í landsliðið. Hljóp mest allra, skilaði sér vel til baka og var alltaf ógnandi í stöðunni 1 á 1. Náði að skapa usla með löngu innköstunum sínum og kom meðal annars eitt mark upp úr því. Klárlega eitthvað sem Ísland getur nýtt sér enn betur í framtíðinni.

Elín Metta Jensen 8
Kolkrabbinn. Hélt boltanum ótrúlega vel og stríddi varnarmönnum Svía. Vann vel til baka þegar á þurfti og skoraði jöfnunarmark Íslands.

Varamenn:

Hlín Eiríksdóttir (‘81)
Spilaði of lítið til að fá einkunn.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir (‘85)
Spilaði of lítið til að fá einkunn.
Athugasemdir
banner
banner