Smith Rowe og Nelson á förum - Chelsea náði samkomulagi við Aston Villa - Úrvalsdeildarfélög keppast um Abraham - Arsenal vill Nico Williams -...
   fim 23. maí 2024 10:40
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Saga Ademola Lookman: Flopp hjá Everton en stórstjarna í gær
Ademola Lookman með Evrópudeildarbikarinn.
Ademola Lookman með Evrópudeildarbikarinn.
Mynd: EPA
Lookman í leik með Charlton.
Lookman í leik með Charlton.
Mynd: Getty Images
Floppaði hjá Everton.
Floppaði hjá Everton.
Mynd: Getty Images
Fékk alla athyglina í gær.
Fékk alla athyglina í gær.
Mynd: EPA
Ademola Lookman var maðurinn sem eyðilagði ótrúlega taplausa hrinu Bayer Leverkusen; hrinu sem entist í 51 leik og í tæpt ár eða 361 dag.

Lookman skoraði þrennu þegar Atalanta vann 3-0 sigur á Leverkusen í gærkvöldi. Eftir leikinn fékk hann 10 í einkunn frá franska dagblaðinu L'Equipe en þetta er aðeins í 18. sinn sem blaðið gefur fullkoma einkunn.

„Þetta er eitt af bestu kvöldum lífs mins, við unnum titilinn. Við unnum titilinn! Ég veit ekki hvað ég á að segja en þetta er stórkostleg tilfinning," sagði Lookman í skýjunum eftir leikinn í gær en það er hægt að segja að hann hafi verið óvænt hetja. Hver er maðurinn eiginlega?

Lookman er 26 ára gamall, fæddur árið 1997, en hann fæddist í Wandsworth, úthverfi Lundúna. Hann spilaði fyrir hverfisliðið sitt til 17 ára aldurs þegar útsendarar frá Charlton tóku eftir honum. Hann var lengi að komast að í akademíu hjá atvinnumannaliði en þarna tókst það. Og hann var fljótur að láta til sín taka þar sem hann ógnaði með hraða sínum og krafti.

Hann raðaði inn mörkum með unglingaliðum Charlton og rúmu eftir að hann kom til félagsins þá spilaði hann sinn fyrsta leik með aðalliðinu. Hann skoraði sitt fyrsta mark fyrir Charlton í 3-2 tapi gegn Brighton á köldu desemberdegi árið 2015.

Saga Lookman er býsna áhugaverð þar sem það voru miklar vonir bundnar við hann eftir að hann skaust fram á sjónarsviðið með Charlton. Hann var seldur til Everton árið 2017 fyrir allt að 11 milljónir punda og skrifaði þar undir fjögurra og hálfs árs samning. Hann átti að vera næsta stjarna Everton sem félagið myndi svo selja áfram á margfalt hærri upphæð.

Lookman var þó engin stjarna hjá Everton. Hann byrjaði aðeins sjö úrvalsdeildarleiki á þremur tímabilum og var svo lánaður til RB Leipzig í Þýskalandi. Hann spilaði vel þar og var þá keyptur fyrir um 15 milljónir punda til félagsins. Leipzig er þekkt þróunarstöð fyrir unga leikmenn en Lookman náði ekki að þróa leik sinn mikið eftir að hann var keyptur þangað. Hann var lánaður til Fulham og Leicester, en síðarnefnda félagið vildi ekki kaupa hann á 14 milljónir punda. Hann hótaði því að blómstra í þann leikmann sem hann gæti orðið er hann var á láni á Englandi en honum tókst ekki að komast yfir línuna.

Saga Lookman, sem hafnaði því að spila fyrir Englandi og valdi Nígeríu í staðinn, virtist ætla að vera röð eintómra vonbrigða. Það sem hefði getað orðið. En í gær skrifaði hann nýjan kafla í söguna. Magnaðan kafla.

Hann var keyptur til Atalanta á Ítalíu sumarið 2022 og þar hefur hann fundið gott heimili undir handleiðslu hins sóknarsinnaða Gian Piero Gasperini. Lookman er núna orðinn einn mest spenanndi kantmaður Evrópu en hann er búinn að gera 30 mörk í öllum keppnum síðustu tvö tímabilin með Atalanta.

Uppgangur Lookman er sönnun þess að þróun fótboltamanns er ekki alltaf nákvæmlega eins. Þó að margir vinir hans hafi verið í akademíum frá sjö ára aldri, þá tók það hann tíu ár að komast að hjá Charlton. Og það hefur tekið hann tíma að brjótast út en síðustu tvö árin hefur hann sýnt hvað hann getur. Og í gærkvöldi skráði Lookman nafn sitt á sögubækurnar þegar hann var aðalmaðurinn í fyrsta Evróputitli Atalanta.



Athugasemdir
banner