Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
   mið 24. febrúar 2021 18:07
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Sara Björk við Hansen: Framtíðin björt hjá íslenska landsliðinu
Icelandair
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði.
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Caroline Graham Hansen.
Caroline Graham Hansen.
Mynd: Getty Images
Sara Björk Gunnarsdóttir, landsliðsfyrirliði Íslands, fór um síðustu helgi í beina útsendingu á samfélagsmiðlinum Instagram með norsku fótboltakonunni Caroline Graham Hansen í tilefni af því að það voru 500 dagar í Evrópumót kvenna á Englandi.

Bæði Ísland og Noregur verða á mótinu. Sara leikur með Evrópumeisturum Lyon en Hansen er á mála hjá spænska stórliðinu Barcelona. Þær þekkjast vel þar sem þær voru áður fyrr samherjar hjá Wolfsburg í Þýskalandi.

„Við byrjuðum vel. Við áttum heimaleiki gegn Slóvakíu og Lettlandi sem við unnum. Við vorum með Svíþjóð í riðli og þær voru auðvitað sigurstranglegri. Ég veit líka þegar við spilum á móti Svíþjóð og ef við spilum okkar leik, þá getum við unnið," sagði Sara.

„Við náðum í góð úrslit fyrri leiknum, við gerðum jafntefli en áttum skilið að vinna. Það var tekið mark af okkur sem ég skoraði. Við áttum mjög góðan leik og það gaf okkur aukið sjálfstraust fyrir seinni leikinn. Covid hafði áhrif fyrir seinni leikinn. Lið á Íslandi máttu ekki æfa saman. Við spiluðum ekki vel á útivelli gegn Svíþjóð og þær unnu verðskuldaðan sigur. Við vissum eftir þann leik að við þyrftum að vinna restina af leikjunum. Það var stressandi en okkur tókst það," sagði Sara jafnframt en Ísland komst beint á mótið sem eitt af liðunum með bestan árangur í öðru sæti.

Hansen spurði Söru hvernig henni litist á Evrópumótið sem fer fram sumarið 2022.

„Það var svekkjandi að komast ekki á HM síðast, ég vil komast einhvern tímann á HM. Það er eitt af markmiðum mínum. Þetta verður fjórða Evrópumótið mitt. Ég er spenntust fyrir þessu móti, það verður stórt. Kvennaboltinn heldur áfram að þróast í rétta átt eftir hvert stórmót. Þetta verður spennandi. Vonandi getum við fengið áhorfendur á vellina og notið þess."

Þá spurði Hansen Söru út í íslenska liðið sem er mjög spennandi um þessar mundir. Margir leikmenn eru að fara út í atvinnumennsku og margir ungir og efnilegir leikmenn komnir inn í liðið.

„Við vorum með svipaðan hóp í langan tíma og núna er ný kynslóð að koma inn. Það er hægt að sjá núna að það eru margar ungar stelpur að koma upp og taka sæti sitt í liðinu. Þetta eru leikmenn sem eru núna að spila í atvinnumennsku. Það eru margir leikmenn að spila núna í bestu deildunum. Þetta hjálpar okkur að þróast, að leikmennirnir séu að spila með betri leikmönnum í betri deildum. Framtíðin er björt og það eru spennandi tímar framundan í landsliðinu."

Hér að neðan má sjá og hlusta á spjallið á milli Söru og Hansen.


Athugasemdir
banner
banner
banner