„Ég er mjög sáttur, ég held að það eigi mörg lið eftir að koma hér og tapa stigum. Mér fannst frammistaðan góð, átti ekki von á einhverjum sambabolta því þetta er í fyrsta sinn sem við förum á gras og þó að völlurinn sé ágætur þá er hann ekki rennisléttur, er þurr og það er vindur," sagði Arnar Grétarsson, þjálfari KA, eftir sigur gegn ÍBV í Vestamannaeyjum í dag.
Lestu um leikinn: ÍBV 0 - 3 KA
„Það voru einhver atvik þar sem þeir kölluðu eftir hendi-víti en annars sköpuðu þeir sér ekkert í fyrri hálfleik. Það var mjög sætt að skora á lokasekúndum fyrri hálfleiks - fannst það sanngjarnt. Við erum heppnir þegar þeir skora úr horninu, vonandi er það réttur dómur, það er svekkjandi ef það er ekki en gott fyrir okkur að það var rangstaða dæmd."
„Við náum svo öðru markinu og erum alltaf hættulegir þegar við liggjum til baka - erum fljótir fram á við. Fínt að skora þrjú mörk, hefðum getað bætt við fleirum en ég er mjög sáttur með frammistöðuna heilt yfir."
Helduru að eyjamenn hafi haft eitthvað til síns máls þegar þeir voru að kalla eftir vítaspyrnum?
„Það getur vel verið - ég veit það ekki. Þetta er allt hönd í bolta eða bolti í hönd. Mér fannst nokkur atriði í fyrri hálfleik þar sem farið var í Nökkva og áttum líka tilköll og vorum ósáttir við að fá ekkert. Ég vona að það hafi verið rétt hjá línuverðinum þegar Danni komst inn fyrir og þeir bjarga á línu. Það er erfitt að sjá það frá hliðarlínunni."
Arnar er hæstánægður með byrjun síns liðs í sumar, uppskeran sex stig, fjögur mörk skoruð og ekkert fengið á sig.
Í lok viðtals svaraði Arnar svo spurningum um Dusan Brkovic, Bryan Van Den Bogaert og Ásgeir Sigurgeirsson. Svör hans við þeim spurningum og viðtalið í heild má sjá í spilaranum að ofan.
Athugasemdir