Fyrsta umferð fótboltamóts Ólympíuleikanna fer fram í dag og hefur helmingur þjóðanna spilað sína fyrstu leiki á mótinu.
Soufiane Rahimi, 28 ára leikmaður Al-Ain, skoraði bæði mörk Marokkó í frábærum sigri gegn Argentínu í opnunarleiknum í dag.
Rahimi er einn af þremur leikmönnum Marokkó sem hafa náð 23 ára aldri og fá samt að fara með U23 liðinu á Ólympíuleikana, alveg eins og Achraf Hakimi sem er 25 ára gamall og lagði upp fyrsta mark leiksins í dag fyrir Rahimi.
Giuliano Simeone, 21 árs sonur Diego Simeone þjálfara Atlético Madrid, kom þá inn af bekknum í liði Argentínu í upphafi síðari hálfleiks og skoraði tæpum stundarfjórðungi síðar. Simeone minnkaði muninn þannig niður í eitt mark en Argentínumönnum tókst ekki að jafna leikinn.
Julián Álvarez, sóknarmaður Manchester City, lék allan leikinn í liði Argentínu en tókst ekki að skora. Þá bar hinn 36 ára gamli Nicolas Otamendi fyrirliðabandið í tapinu.
Nokkru síðar hafði Spánn betur gegn Úsbekistan eftir jafna og spennandi viðureign þar sem Úsbekar gáfu ekkert eftir.
Stoðsendingavélin Abel Ruiz, sem leikur með Girona á Spáni, lagði upp fyrsta mark leiksins fyrir Marc Pubill á 29. mínútu en Eldor Shomurodov, 29 ára sóknarleikmaður Roma, jafnaði muninn úr vítaspyrnu í uppbótartíma fyrri hálfleiks.
Sergio Gomez, fyrrum leikmaður Man City sem leikur fyrir Real Sociedad í dag, klúðraði vítaspyrnu fyrir Spán á 59. mínútu en bætti upp fyrir mistökin með því að skora það sem reyndist sigurmark leiksins aðeins þremur mínútum síðar, eftir stoðsendingu frá varnarmanninum Juan Miranda sem Bologna var að kaupa á dögunum.
Egyptaland gerði þá markalaust jafntefli við Dóminíska lýðveldið á meðan Nýja-Sjáland hafði betur gegn Naby Keita og félögum í Gíneu.
Argentína 1 - 2 Marokkó
0-1 Soufiane Rahimi ('45+2)
1-1 Soufiane Rahimi ('51, víti)
1-2 Giuliano Simeone ('68)
Úsbekistan 1 - 2 Spánn
0-1 Marc Pubill ('29)
1-1 Eldor Shomurodov ('45+3, víti)
1-1 Sergio Gomez, misnotað víti ('59)
1-2 Sergio Gomez ('62)
Egyptaland 0 - 0 Dóminíska lýðveldið
Gínea 1 - 2 Nýja-Sjáland
Athugasemdir