Manchester City, Newcastle United og Tottenham Hotspur eru öll komin áfram í 16-liða úrslit enska deildabikarsins.
Phil Foden var frábær hjá Manchester City í 2-0 útisigri á Huddersfield Town.
Foden skoraði fyrra markið á 18. mínútu eftir frábært þríhyrningsspil með nýliðanum Divine Mukasa áður en hann skaut þéttingsföstu skoti neðst í hægra hornið við vítateigslínuna.
Huddersfield gerði vel að halda Man City í skefjum næsta klukkutímann eða svo, en gestirnir náðu að skapa sér fá hættuleg færi eða fram að 74. mínútu er Savinho bætti við öðru eftir stoðsendingu frá Foden.
Nokkuð miklir yfirburðir hjá Man City á vellinum og getur Pep Guardiola verið nokkuð sáttur með leikinn og úrslitin.
Ríkjandi meistarar Newcastle United unnu Bradford City, 4-1, á St. James' Park.
Það má segja að Newcastle hafi gert út um leikinn á tæpum þremur mínútum í fyrri hálfleiknum. Joelinton kom þeim yfir á 17. mínútu er skot Anthony Gordon fór af varnarmanni og til Joelinton sem skoraði með góðu skoti úr teignum.
Danski sóknarmaðurinn William Osula var næstur á blað eftir glæsilega sendingu Bruno Guimaraes inn fyrir og afgreiðslan yfirveguð hjá þeim danska.
Þriðja markið var eftir brasilíska samvinnu þeirra Joelinton og Guimaraes. Sá síðarnefndi fékk boltann inn fyrir, lagði boltann á milli tveggja varnarmanna á Joelinton sem skoraði með því að setja boltann í vinstra hornið.
Bradford skoraði sárabótarmark tveimur mínútum síðar áður en Osula kórónaði frábæran leik Newcastle með öðru marki sínu undir lok leiksins. Titilvörn Newcastle hefst á sigri og verður lið í pottinum þegar dregið verður í 16-liða úrslitin.
Tottenham landaði 3-0 sigri gegn Doncaster Rovers í Lundúnum.
Portúgalinn Joao Palhinha skoraði annað mark sitt fyrir Tottenham með stórkostlegri bakfallsspyrnu eftir hornspyrnu Xavi Simons. Sá hefur stimplað sig rækilega inn síðan hann kom frá Bayern München.
Þremur mínútum síðar kom annað mark heimamanna eftir undirbúning Wilson Odobert. Hann keyrði upp vinstri vænginn, kom föstum bolta fyrir. Jay McGrath, varnarmaður Doncaster, reyndi hvað hann gat til að bjarga marki, en setti boltann í staðinn í eigið net.
Brennan Johnson rak síðasta naglann í kistu Doncaster eftir að Lucas Bergvall sendi hann í gegn. Ískaldur Johnson lyfti boltanum yfir markvörð gestanna og þar við sat.
Úrslit og markaskorarar:
Huddersfield 0 - 2 Manchester City
0-1 Phil Foden ('18 )
0-2 Savinho ('74 )
Newcastle 4 - 1 Bradford
1-0 Joelinton ('17 )
2-0 William Osula ('19 )
3-0 Joelinton ('75 )
3-1 Andy Cook ('79 )
4-1 William Osula ('87 )
Tottenham 3 - 0 Doncaster Rovers
1-0 Joao Palhinha ('14 )
2-0 Jay Mcgrath ('17 , sjálfsmark)
3-0 Brennan Johnson ('90 )
Athugasemdir