Man Utd og Palace vilja Bellingham - Nathaniel Brown á blaði Arsenal, City og Real - Chelsea vill Wharton
   þri 14. október 2025 23:00
Ívan Guðjón Baldursson
Tuchel: Áhorfendur fengu mig til að brosa
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Thomas Tuchel landsliðsþjálfari Englendinga gaf kost á sér í viðtal eftir stórsigur gegn Lettlandi fyrr í kvöld.

England vann með fimm marka mun á útivelli eftir að hafa einnig unnið með fimm mörkum í Serbíu í síðasta landsleikjahlé.

„Svona leikir eru aldrei auðveldir þó að þeir líti kannski út fyrir það heima í stofu. Það fer mikil vinna í hvern einasta leik og þetta var frábær liðsframmistaða í kvöld. Þetta er sérstök stund því við erum búnir að tryggja okkur á HM. Stemningin í hópnum er mjög góð, við ætlum að njóta stundarinnar," sagði Tuchel.

„Við erum búnir að vinna alla sex leikina okkar í undankeppninni án þess að fá mark á okkur. Það er magnað og andrúmsloftið er í takt við það.

„Þetta gefur okkur tækifæri til að prófa nýja hluti í síðustu tveimur leikjunum, en við viljum samt vinna þá báða. Við skuldum sjálfum okkur það og stuðningsmönnum. Við erum að byggja eitthvað mjög dýrmætt og munum halda áfram á okkar vegferð."


Tuchel var spurður út í lokamót HM sem fer fram í Bandaríkjunum næsta sumar og má búast við 40 stiga hita.

„Það er mikill munur að spila í 40 stiga hita í sól og 8 stigum og rigningu. Leikmenn munu ekki geta hlaupið jafn mikið. Það er mikil vinnsla í okkar liði, við hlaupum mjög mikið og við munum þurfa að aðlagast hitanum. Þetta er leikstíllinn sem ég og leikmennirnir viljum spila."

Hann var að lokum spurður út í söngva stuðningsmanna enska landsliðsins í Lettlandi, sem gerðu mikið grín að Tuchel. Þeir voru að svara gagnrýni hans frá því fyrir helgi, þegar hann kvartaði undan lélegum stuðningi í nágrannaslaginum gegn Wales á Wembley.

„Þeir gerðu svoldið grín að mér í fyrri hálfleik þar sem ég var næstum í hverju einasta lagi sem þeir sungu. Þetta var vel gert, þetta er fyndið. Ég get tekið þessu," sagði Tuchel.

„Þeir voru að svara ummælunum mínum frá því siðast og ég get skilið það. Þetta var frumlegt og fékk mig til að brosa. Þetta er breskur húmor og ég tek þessu ekki illa.

„Stuðningurinn var frábær í dag og við erum vissir um að hann verður það líka í Bandaríkjunum. Við þurfum á áhorfendunum að halda, þeir geta gert gæfumuninn fyrir leikmenn. Það er mikil orka sem fæst frá áhorfendapöllunum. Við viljum gleðja ensku þjóðina og gera hana stolta af okkur, við viljum að það sé gaman fyrir fólkið að horfa á landsleiki og að áhorfendum líki við leikstílinn okkar."


   14.10.2025 22:44
Ensku stuðningsmennirnir gerðu grín að Tuchel

Athugasemdir
banner