Lionel Messi tók þátt í vináttulandsleik með Argentínu gegn Púertó Ríkó í nótt.
Heimsmeistararnir ríkjandi unnu sex marka sigur þar sem Messi komst ekki á blað en lagði tvö mörk upp. Hann er þar með kominn með 60 stoðsendingar á landsliðsferli sínum og er orðinn stoðsendingahæsti leikmaður í sögu landsliða.
Hann klifrar yfir hinn brasilíska Neymar og bætir stoðsendingametið hans sem stóð í 59.
Alexis Mac Allister, miðjumaður Liverpool, skoraði tvennu í sigrinum og það gerði Lautaro Martínez, fyrirliði Inter, einnig. Nicolás González átti einnig tvær stoðsendingar.
Kanada gerði þá markalaust jafntefli við Kólumbíu eftir afar tíðindalitla viðureign þar sem Kólumbía fékk besta marktækifæri leiksins, á meðan Bandaríkin lögðu Ástralíu að velli og Mexíkó hafði betur gegn Ekvador.
Jordan Bos tók forystuna fyrir Ástralíu en Haji Wright, sóknarmaður Coventry, skoraði tvennu til að snúa stöðunni við. Cristian Roldan átti báðar stoðsendingarnar.
Mexíkó spilaði að lokum við Ekvador og tók forystuna strax á þriðju mínútu. Hún átti þó ekki eftir að lifa lengi því Jordi Alcívar jafnaði úr vítaspyrnu og var staðan jöfn í leikhlé.
Púertó Ríkó 0 - 6 Argentína
0-1 Alexis Mac Allister ('14)
0-2 Gonzalo Montiel ('23)
0-3 Alexis Mac Allister ('36)
0-4 Steven Echevarria ('64, sjálfsmark)
0-5 Lautaro Martinez ('79)
0-6 Lautaro Martinez ('84)
Kanada 0 - 0 Kólumbía
Bandaríkin 2 - 1 Ástralía
0-1 Jordan Bos ('19)
1-1 Haji Wright ('33)
2-1 Haji Wright ('52)
Mexíkó 1 - 1 Ekvador
1-0 German Berterame ('3)
1-1 Jordi Alcivar ('20, víti)
Athugasemdir