
Jóhann Kristinn Gunnarsson er hættur sem þjálfari Þórs/KA en þetta kemur fram í tilkynningu félagsins í kvöld.
Jóhann Kristinn stýrði liðinu í átta tímabil. Hann tók fimm tímabil frá 2012 til 2016 þar sem liðið varð meðal annars Íslandsmeistari og komst í bikarúrslit.
Jóhann Kristinn stýrði liðinu í átta tímabil. Hann tók fimm tímabil frá 2012 til 2016 þar sem liðið varð meðal annars Íslandsmeistari og komst í bikarúrslit.
Hann tók aftur við starfinu árið 2022 og tókst að stýra í því í efri hlutann tvö tímabil en endaði í 7. sæti á nýafstöðnu tímabili. Tvisvar fór hann með liðið í úrslit Lengjubikarsins og einu sinni í undanúrslit.
Jóhann Kristinn tilkynnti stjórn Þórs/KA á fundi í dag að hann muni stíga til hliðar og ekki endurnýja samning sinn við félagið.
„Jóhann Kristinn hefur unnið frábært starf fyrir Þór/KA á þeim átta árum sem hann þjálfaði liðið samanlagt og ekki hægt í stuttum pistli að fara yfir og útskýra þau áhrif og þær framfarir í starfi félagsins sem hann hefur átt stóran þátt í að móta og koma í framkvæmd, auk þess að hafa alltaf verið okkur haukur í horni og ávallt tilbúinn að gefa góð ráð og aðstoða einnig á þeim tíma sem hann starfaði ekki sem þjálfari hjá félaginu.
Árin átta sem Jóhann Kristinn hefur starfað fyrir Þór/KA eru dýrmæt fyrir öll þau sem að félaginu hafa komið á þessum tíma, bæði leikmenn, aðra þjálfara og starfsfólk, stjórnarfólk og sjálfboðaliða og verðum við í Þór/KA honum ævinlega þakklát fyrir framlag hans til þróunar og framgangs knattspyrnu kvenna á Akureyri,“ segir í yfirlýsingu Þórs/KA.
Jóhann hefur verið orðaður við þjálfarastarfið hjá Þrótti en það losnar í næsta mánuði. Ólafur Kristjánsson hefur stýrt Þrótturum frá 2023 en hann hefur verið ráðinn aðstoðarþjálfari kvennalandsliðsins og mun hann einnig leiða þróun og stefnumótun hjá yngri landsliðum kvenna og sinna fræðslutengdum verkefnum hjá KSÍ.
Athugasemdir