talkSPORT greinir frá því að Antoine Semenyo, lykilmaður í liði Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni, sé með riftunarákvæði í nýjum samningi sínum við félagið.
Semenyo er aðalmaðurinn hjá Bournemouth og hefur komið að 9 mörkum í 7 fyrstu leikjum tímabilsins í ensku úrvalsdeildinni.
Það voru nokkur félög sem reyndu að kaupa kantmanninn úr röðum Bournemouth síðasta sumar en tókst ekki. Félagið vildi fá um 70 til 80 milljónir punda fyrir, en Semenyo skrifaði undir nýjan samning 1. júlí.
Sá verðmiði hefur væntanlega hækkað eftir magnaða byrjun á nýju tímabili, en nýr samningur Semenyo við félagið rennur út 2030.
Félagið er því ekki undir neinni pressu til að selja leikmanninn, nema að riftunarákvæðið verði virkjað.
Ekki er tekið fram hversu hátt riftunarákvæðið sé og hefur ekki fengist nein staðfesting á því hvort það sé í raun til staðar.
Manchester United og Tottenham voru mest orðuð við Semenyo síðasta sumar en Sky Sports segir að Manchester City, Chelsea, Aston Villa, Liverpool og Newcastle hafi öll sýnt honum áhuga.
Þrátt fyrir mikla markaskorun í úrvalsdeildinni er Semenyo aðeins kominn með 3 mörk í 30 landsleikjum með Gana.
07.10.2025 20:55
Semenyo orðaður við Liverpool
Athugasemdir