
Spænska stórliðið Barcelona fagnaði öruggum 4-0 sigri á Roma í 2. umferð í deildarkeppni Meistaradeildar Evrópu í kvennaflokki í kvöld og þá vann Chelsea franska liðið Paris FC með sömu markatölu.
Barcelona var með mikla yfirburði gegn Roma í leiknum og komst yfir strax á 2. mínútu er Esmee Brugts skoraði með skoti af stuttu færi eftir þunga sókn Börsunga.
Það reyndist eina mark Barcelona í fyrri hálfleiknum en þær keyrðu yfir andstæðinga sína í þeim síðari.
Alexia Putellas fór á vítapunktinn á 51. mínútu en setti spyrnuna yfir markið. Sjö mínútum síðar bætti Kika Nazareth við öðru markinu áður en Börsungar fengu annað víti.
Aftur fór Putellas á punktinn og í þetta sinn skoraði hún og bætti upp fyrir fyrra vítið.
Caroline Graham Hansen gerði endanlega út um leikin með marki undir lok leiks og 4-0 sigur Börsunga staðreynd. Barcelona er með fullt hús stiga á toppnum en Roma án stiga í næst neðsta sæti.
Chelsea vann Paris FC með sömu markatölu í Lundúnum. Sandy Baltimore kom Chelsea á bragðið með marki úr vítaspyrnu á 31. mínútu og átta mínútum síðar var staðan orðin 2-0 er Johanna Kaneryd skoraði með skalla eftir glæsilegan undirbúning frá Alyssu Thompson.
Thompson gerði þriðja markið í upphafi síðari hálfleiks áður en Erin Cuthbert rak síðasta naglann í kistu franska liðsins. Chelsea er með 4 stig en Paris aðeins eitt stig.
Amanda Andradóttir og liðsfélagar hennar í Twente fóru tómhentar heim er liðið tapaði fyrir Leuven, 2-1, í Belgíu.
Twente komst yfir undir lok fyrri hálfleiks og hélt í forystuna alveg fram að lokamínútunum. Leuven fékk víti á 82. mínútu sem Linde Veefkind skoraði úr og í uppbótartíma tryggði Ungverjinn Sara Pusztai sigur Leuven.
Svekkjandi fyrir Amöndu sem sat allan tímann á varamannabekk Twente í leiknum. Twente er með eitt stig eftir tvo leiki en Leuven með fjögur stig.
Roma 0 - 4 Barcelona
0-1 Esmee Brugts ('2 )
0-2 Kika Nazareth ('58 )
0-3 Alexia Putellas ('71, víti )
0-4 Caroline Graham Hansen ('90 )
Chelsea 4 - 0 Paris FC
1-0 Sandy Baltimore ('31, víti )
2-0 Johanna Kaneryd ('39 )
3-0 Alyssa Thompson ('47 )
4-0 Erin Cuthbert ('63 )
Leuven 2 - 1 Twente
0-1 Jaimy Ravensbergen ('39 )
1-1 Linde Veefkind ('83, víti )
2-1 Sara Pusztai ('90 )
Athugasemdir