Inter í kapphlaupið um Guehi en Liverpool leiðir - Wharton ofar en Baleba á lista Man Utd - Muscat líklegastur til Rangers
   mið 15. október 2025 09:30
Elvar Geir Magnússon
Fjölgar í kapphlaupinu um Guehi en Liverpool leiðir
Powerade
Marc Guehi, varnarmaður Englands og Crystal Palace.
Marc Guehi, varnarmaður Englands og Crystal Palace.
Mynd: EPA
Adam Wharton.
Adam Wharton.
Mynd: EPA
Kevin Muscat er líklegastur sem næsti stjóri Rangers.
Kevin Muscat er líklegastur sem næsti stjóri Rangers.
Mynd: EPA
Marc Guehi er gríðarlega eftirsóttur, Manchester United er með Wharton efstan á óskalistanum og Kevin Muscat er líklegastur sem næsti stjóri Rangers í Glasgow. Þetta og fleira í slúðurpakkanum.

Ítalska félagið Inter hefur blandað sér í kapphlaupið um Marc Guehi (25), miðvörð Crystal Palace, en Liverpool er enn talið líklegast til að tryggja sér enska landsliðsmanninn. (Tuttosport)

Antoine Semenyo (25), framherji Bournemouth, er með riftunarákvæði í samningi sínum en félagið vill halda því leyndu því það vill halda ganverska landsliðsmanninum. Tottenham og Manchester United hafa sýnt honum áhuga. (TalkSport)

Chelsea og Barcelona fylgjast með portúgalska framherjanum Cardoso Varela (16) sem er hjá Dinamo Zagreb. (Mundo Deportivo)

Brighton hefur ekki áætlanir um selja Carlos Baleba (21) í janúar en Manchester United hafði áhuga á honum í sumar. (TalkSport)

Adam Wharton (21), miðjumaður Crystal Palace, er ofar á óskalista Manchester United en Baleba. (The I)

Manchester United íhugar að framlengja samning brasilíska miðjumannsins Casemiro (33) framyfir þetta tímabil en bara ef hann er klár í að taka á sig launalækkun. (Mail)

Félög í Brasilíu og Sádi-Arabíu hafa áhuga á Casemiro en Rúben Amorim hefur áhuga á að halda honum. (ESPN)

Þýski markvörðurinn Marc-Andre ter Stegen (33) er ákveðinn í að yfirgefa ekki Barcelona þrátt fyrir fréttir af áhuga Manchester United og Newcastle United. (Diario AS)

Barcelona hefur áhuga á Daniel Munoz (29), varnarmanni Crystal Palace. Enska félagið ætlar ekki að láta Kólumbíumanninn af hendi í janúar (Fichajes)

Ross Wilson, nýr íþróttastjóri Newcastle, á að rýna í samingamál félagsins til að forðast atburðarás eins og þá sem skapaðist þegar Alexander Isak (26) fór til Liverpool. (The I)

Chelsea hefur ekki áhyggjur af framtíð ekvadorska miðjumannsins Moises Caicedo (23) þó hann hafi verið að skipta um umboðsmann. (Telegraph)

Chelsea ætlar að verðlauna Caicedo með nýjum samningi til að reyna að fæla burt áhuga Real Madrid. (Teamtalk)

Ástralinn Kevin Muscat (52) er líklegastur sem næsti stjóri Rangers í Glasgow. Muscat er fyrrum leikmaður Rangers en hann stýrir nú Shanghai Port í Kína. Muscat hefur á þjálfaraferlinum unnið ástralska, japanska og kínverska meistaratitilinn. (BBC)

Borussia Dortmund hefur áhuga á spænska miðjumanninum Guille Fernandez (17) sem hefur enn ekki spilað fyrir aðallið Barcelona. (Bild)
Athugasemdir