Matheus Cunha leiddi sóknarlínu Brasilíu í æfingalandsleik gegn Suður-Kóreu á dögunum og átti stoðsendingu í fimm marka sigri.
Hann ræddi við brasilíska risamiðilinn globo eftir stórsigurinn og var meðal annars spurður út í félagaskiptin sín til Manchester United.
„Þetta er án efa komið á annað stig allt saman, fólk fylgist meira með mér núna eftir að ég skipti til Manchester United. Fólk þekkir leikstílinn minn betur og veit hvað ég get gert," sagði Cunha, sem á enn eftir að skora eða leggja upp frá komu sinni til Manchester.
„Ég er bara búinn að vera hérna í tvo mánuði en mér líður eins og ég hafi verið hérna í langan tíma útaf ástandinu sem félagið er í. Ég var keyptur fyrir mikinn pening og verð að byrja að sanna að ég á heima hjá þessu félagi."
Cunha kom svo inn af bekknum í 3-2 tapleik gegn Japan í gær. Brassar komust í tveggja marka forystu í fyrri hálfleik en Japanir komu til baka eftir leikhlé og verðskulduðu endurkomusigurinn.
Cunha er 26 ára gamall og var algjör lykilmaður hjá Wolves áður en Rauðu djöflarnir keyptu hann. Þessi öflugi sóknarleikmaður kom að 23 mörkum með beinum hætti í 36 leikjum með Wolves á síðustu leiktíð.
Athugasemdir