fim 24. nóvember 2022 08:00
Brynjar Ingi Erluson
Al Shahrani sendir skilaboð frá spítalanum
Yasser Al Shahrani fékk þungt högg í andlitið
Yasser Al Shahrani fékk þungt högg í andlitið
Mynd: EPA
Yasser Al Shahrani, leikmaður Sádi Arabíu, lenti í fremur óhugnalegu atviki í 2-1 sigri liðsins á Argentínu í fyrstu umferð heimsmeistaramótsins í Katar um helgina en hann rotaðist eftir ljótt högg í síðari hálfleiknum.

Al Shahrani átti frábæran leik gegn Argentínu og var yfirvegaður í sínum aðgerðum.

Í uppbótartíma síðari hálfleik ætlaði Mohammed Al-Owais, markvörður Sádi Arabíu, að stökkva út í bolta í teignum en það vildi ekki betur en svo að hann flaug með hnéð beint í andlit Al Shahrani sem rotaðist um leið.

Endursýning af atvikinu var sérstaklega óhugnanleg en höggið var þungt og leit út fyrir að vera lífshættulegt. Al Shahrani var fluttur í flýti til Riyadh þar sem hann fór neyðaraðgerð á kjálka.

Al Shahrani er vaknaður og vildi hann senda skilaboð og uppfæra fólk um heilsu sína.

„Ég vildi fullvissa ykkur um það að heilsan er góð. Takk fyrir bænirnar og stuðningsmenn landsliðsins eiga skilið að vinna,“ sagði Al Shahrani en myndband af kveðjunni má sjá hér fyrir neðan.

Ekki er búist við því að Al Shahrani spili meira á mótinu.


Athugasemdir
banner
banner
banner