Musiala efstur á blaði Man City - Sóknarmenn orðaðir við Arsenal - Colwill orðaður við Liverpool og PSG
   þri 25. febrúar 2020 22:49
Brynjar Ingi Erluson
Lampard: Frammistaðan var léleg
Frank Lampard
Frank Lampard
Mynd: Getty Images
Frank Lampard, stjóri Chelsea, var vonsvikinn með liðið sitt eftir 3-0 tapið gegn Bayern München í 16-liða úrslitum Meistaradeildar Evrópu í kvöld.

Chelsea tókst að halda Bayern í skefjum í fyrri hálfleik en í þeim síðari gekk þýska liðið á lagið. Serge Gnabry skoraði tvö mörk á þremur mínútum og þá gerði Lewandowski þriðja markið eftir frábæran sprett frá Alphonso Davies.

Þungt tap hjá Chelsea en Lampard sér þetta sem lærdóm fyrir leikmennina.

„Frammistaðan var léleg og stundum þarf maður að vera hreinskilinn. Þeir voru betri en við á öllum sviðum og það er svolítið áhyggjuefni," sagði Lampard.

„Það er engin furða að þetta lið er að berjast um þýska titilinn og Meistaradeildina á hverju ári. Ég er vonsvikinn með að ná ekki að gera meira gegn þeim en maður verður bara að taka þessu og vinna að því að komast á þann stað sem við viljum vera á."

„Ef þú horfir á ákvarðanatöku í sendingu hjá þeim og svo hjá okkur, þá þurfum við að bæta okkar aðeins. Leikmennirnir mínir koma til með að horfa á andstæðingana sem þeir voru að spila gegn og vinna að því að komast á sama stall. Við munum alltaf spila upp á stoltið en ég hef meira áhyggjur af heildarmyndinni sem er hversu fljótt við getum náð að rífa okkur upp í deildinni og hversu fljótir við erum að fara í sama gæðaflokk og Bayern."


Jorginho og Marcos Alonso verða ekki með í síðari leiknum en Jorginho verður ekki með vegna uppsafnaðra gulra spjalda á meðan Alonso var rekinn af velli fyrir að slá Robert Lewandowski.

„Ég sá ekki spjaldið hjá Marcos Alonso og ég mun horfa á það en hann og Jorginho eru ekki með í seinni leiknum og ég sé það sem tækifæri fyrir aðra að koma inn," sagði hann í lokin.
Athugasemdir
banner