„Það er eflaust hægt að finna rök með og á móti því; við erum nýliðar og misstum marga byrjunarliðsmenn, en við erum líka með marga góða leikmenn sem mælir gegn þessu," segir Þorlákur Árnason, þjálfari ÍBV, um spá Fótbolta.net fyrir Bestu deildina. Eyjamönnum er spáð neðsta sæti deildarinnar.
„Þetta hefur verið erfitt undirbúningstímabil fyrir okkur, en það getur oft verið betra að þurfa að hafa fyrir hlutunum," segir Láki.
„Við spilum auðvitað alla leiki á útivelli sem hefur auðvitað áhrif á liðið, en okkur hlakkar mikið til að spila á heimavelli líka. Við höfum ekki náð að stilla upp okkar sterkasta liði vegna meiðsla leikmanna en við erum að vona að allir verði klárir í fyrsta leik."
Láki tók við ÍBV í vetur eftir að Hermann Hreiðarsson hætti með liðið. Hvernig hefur gengið að aðlagast í nýju starfi og nýju samfélagi?
„Ég er Eyjamaður þannig að það er eins og að setjast á reiðhjól og hjóla," segir Láki.
Það hafa orðið nokkrar breytingar á leikmannahópnum frá síðasta tímabili. Láki segir að það geti enn bæst við hópinn.
„Við misstum auðvitað lykilleikmenn frá síðasta tímabili sem var vont en við höfum líka fengið sterka leikmenn inn í þetta. Heilt yfir hefur leikmannaveltan verið mikil. Við erum að skoða okkar mál núna og það gætu orðið breytingar á hópnum á síðustu metrunum," segir þjálfari Eyjamanna sem er bjartsýnn fyrir komandi sumri.
„Já, ég er alltaf bjartsýnn og hef mikla trú á mínum leikmönnum. Ég held að við eigum eftir að koma á óvart í sumar. Markmiðin eru að fara í hvern einasta leik til að vinna."
Einhver lokaskilaboð til stuðningsmanna?
„Komið og styðjið ykkur lið, ekki bara í Eyjum heldur hvetjum við líka alla Eyjamenn sem eru búsettir upp á landi til
að mæta á völlinn og styðja okkar unga og metnaðarfulla lið," sagði Láki að lokum.
Athugasemdir