Zubimendi nálgast Arsenal - Man Utd gæti skipt Höjlund út fyrir Lookman - Tottenham vill Rashford
   fös 25. apríl 2025 16:30
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
„Fagna því að liðið snúi aftur heim"
Lengjudeildin
Haraldur Árni Hróðmarsson, þjálfari Grindavíkur.
Haraldur Árni Hróðmarsson, þjálfari Grindavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grindvíkingum er spáð áttunda sæti.
Grindvíkingum er spáð áttunda sæti.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frá Stakkavíkurvelli.
Frá Stakkavíkurvelli.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Halli er að fara inn í sitt fyrsta heila tímabil sem þjálfari Grindavíkur.
Halli er að fara inn í sitt fyrsta heila tímabil sem þjálfari Grindavíkur.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Miðað við breytingarnar á leikmannahópnum kemur mér ekki á óvart að við séum í neðri hlutanum í spánni fyrir tímabilið. Við erum spenntir fyrir tímabilinu og teljum okkur geta komið á óvart," segir Haraldur Árni Hróðmarsson, þjálfari Grindavíkur, við Fótbolta.net.

Grindvíkingum er spáð áttunda sæti Lengjudeildarinnar af þjálfurum og fyrirliðum deildarinnar.

„Síðasta tímabil var gríðarlega erfitt fyrir félagið og eitthvað sem flestir vilja líklega gleyma," segir Haraldur en hann tók við liðinu snemma síðasta sumar. Grindavík hafnaði að lokum í níunda sæti Lengjudeildarinnar.

„Leikmenn, stjórnarmenn og stuðningsmenn þurftu að flýja heimili sín og liðið var á vergangi mestan hluta vetrarins. Þegar ég tek við liðinu var mikil andleg þreyta í félaginu en miðað við allt sem gekk á getum við gengið nokkuð sáttir frá borði."

Gerðum stórar breytingar
Haraldur segir að stemningin fyrir komandi sumri sé virkilega góð innan leikmannahópsins.

„Stemningin hefur verið virkilega góð. Við gerðum stórar breytingar á leikmannahópnum og misstum öfluga leikmenn en náðum að sama skapi í gríðarlega spennandi menn og stækkuðum hlutverk yngri leikmanna sem ég finn að Grindvíkingar eru spenntir fyrir. Mæting á æfingaleiki í vetur hefur verið betri en á mótsleiki í fyrra sem bendir til þess að það sé spenningur fyrir sumrinu," segir Halli.

„Veturinn gekk vel að mestu leyti. Við erum með lítinn en þéttan hóp og margir leikmenn hafa fengið stærri hlutverk en þeir eru vanir í meistaraflokki. Við spiluðum marga leiki til að reyna að hlaða reynslu á yngri menn sem gekk með ágætum."

Halli er ánægður með þá leikmenn sem hafa komið til félagsins í vetur. Margir eru þetta ungir leikmenn.

„Ég er hæstánægður með þá menn sem við höfum fengið til okkar en við misstum helst til marga. Ég væri til í tvo til þrjá leikmenn til viðbótar en reikna með að við förum inn í mótið með þá leikmenn sem nú eru til staðar. Ungir leikmenn munu þurfa að stíga stórt skref í sumar," segir þjálfarinn.

Ætla að spila í Grindavík
Fótboltalið Grindavíkur gat ekki spilað á heimavelli sínum síðasta sumar út af jarðhræingum í kringum bæjarfélagið. Stefnan í sumar er að spila í Grindavík.

„Ég fagna því að liðið snúi aftur heim og tel það nauðsynlegt skref fyrir bæjarfélagið og félagið," segir Halli.

„Stakkavíkurvöllur er glæsilegt mannvirki og góður fótboltavöllur en aðallega er ég spenntur fyrir því að vera með heimavöll. Safamýrin var góður staður til að vera á en það er ekki heimavöllur Grindvíkinga."

Grindavík á samkvæmt plani að spila fyrsta leik sumarsins á Stakkavíkurvelli þann 9. maí næstkomandi gegn Fjölni.

Með góðum stuðningi getur þetta orðið stórskemmtilegt
Halli segir að stefnan sé að setja háleit markmið með tímanum en hann hvetur Grindvíkinga til að fjölmenna á völlinn í sumar.

„Þetta gæti orðið tvískipt í sumar. Mörg liðanna í neðri hlutanum hafa misst menn frá sér til liða í Bestu deildinni og það gætu orðið skarpari skil milli efri og neðri hluta."

„Við stefnum á að vera stabílt lið. Við erum nokkuð ungir og við megum ekki verða of sveiflukenndir milli leikja eins og fylgir oft reynsluminni liðum. Á sama tíma viljum við koma okkur vel frá fallsvæðinu sem fyrst og vonandi sett okkur háleitari markmið með tímanum," sagði Haraldur og bætti við að lokum:

„Ég hvet alla Grindvíkinga til að mæta á leiki og styðja drengina, með góðum stuðningi getur tímabilið orðið stórskemmtilegt."
Athugasemdir
banner