fös 25.apr 2025 16:00 Mynd: Fótbolti.net - Haukur Gunnarsson |
|

Spá þjálfara og fyrirliða fyrir Lengjudeildina: 8. sæti
Fótbolti.net kynnir liðin sem leika í Lengjudeildinni í sumar eitt af öðru eftir því hvar þeim er spáð. Við fengum alla fyrirliða og þjálfara í deildinni til að spá fyrir sumarið og fengu liðin stig frá 1-11 eftir því en ekki var hægt að spá fyrir sínu eigin liði. Í áttunda sæti eru Grindvíkingar.
Sölvi Snær Ásgeirsson og Christian Bjarmi Alexandersson eru mjög efnilegir varnarmenn.
Mynd/Grindavík
1. ?
2. ?
3. ?
4. ?
5. ?
6. ?
7. ?
8. Grindavík, 101 stig
9. Leiknir R., 100 stig
10. Fjölnir, 82 stig
11. Selfoss, 49 stig
12. Völsungur, 24 stig
8. Grindavík
Eins og allir vita þá hefur mikið gengið á í Grindavík og síðasta tímabil var auðvitað mjög skrítið hjá fótboltaliðum bæjarfélagsins. Jarðhræringarnar settu líf Grindvíkinga á hliðina og íþróttafélögin þurftu að finna annað heimili. Fótboltaliðin fengu heimili í Safamýrina en árangurinn var ekki eins og vonast hafði verið eftir. Og líklega er það skiljanlegt. Liðið gekk í gegnum þjálfarabreytingar á miðju tímabili og endaði Grindavík að lokum í níunda sæti deildarinnar. Liðið var aldrei í mikilli fallhættu og heldur ekki í baráttunni um umspilið. Körfuboltinn í Grindavík hefur fengið mikla athygli í fyrra og núna líka, en það er spurning hvort fótboltinn nái að grípa athygli þessa sterka samfélags í sumar. Grindavíkurliðið ætlar að spila heima á Stakkavíkurvelli og það verður svo sannarlega áhugavert.
Þjálfarinn: Haraldur Árni Hróðmarsson tók við Grindavík af Brynjari Birni Gunnarssyni á miðju síðasta tímabili. Haraldur Árni var aðstoðarþjálfari hjá ÍA sumarið 2023 en hann ásamt Jóni Þór Haukssyni stýrðu ÍA til sigurs í Lengjudeildinni. Þar áður var hann aðstoðarmaður hjá Val þegar Heimir Guðjónsson stýrði félaginu ásamt því að vera yfirþjálfari yngri flokka en hann er Þróttari í grunninn. Marko Valdimar Jankovic er aðstoðarþjálfari Halla en þeir skrifuðu undir nýjan samning við félagið eftir síðasta tímabil.
Álit Badda
Baldvin Már Borgarsson, þjálfari Árbæjar, er sérfræðingur Fótbolta.net fyrir Lengjudeildina. Hann rýnir í öll liðin fyrir tímabilið sem er framundan.

Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Grindvíkingar á nýrri vegferð
„Vinir mínir í Grindavík eru á sérstökum stað, það er enn í lausu lofti með vallarmál þeirra að mér skilst en þeir skiljanlega vilja spila á heimavelli í Grindavík en að sama skapi vilja sennilega fáir einstaklingar ef einhverjir af þeirra mótherjum beygja af Reykjanesbrautinni í átt að Bláa Lóninu. Grindvíkingar myndu þá líklegast þurfa að breyta sínum heimavelli í Nettóhöllina-gervigras eða galopna landsvæðisvöllinn sunnan við flugvöllinn, sem er því miður eins og nýr og góður æfingavöllur, mjög óspennandi keppnisvöllur. Ég held að Grindvíkingar verði í vandræðum með að mynda samhug og stuðning með mætingu og góðri stemningu hvort sem það verður í Grindavík eða milli Njarðvíkur og Keflavíkur, þannig það er algjört loose-loose dæmi að mínu mati."
„En að liðinu þá eru Grindvíkingar á nýrri vegferð, Halli er klókur og með öflug sambönd. Hann hefur fengið öfluga og skemmtilega stráka af Skaganum, hann hefur sótt flotta unga stráka sem voru að klára 2. flokk og styrkja grunnstoðir liðsins þannig auk þess að bæta við fáum erlendum mönnum í bland."
„Grindjánar þurfa að byrja af krafti til þess að mynda ekki skjálfta í liðinu þar sem mikil reynsla er horfin og félagið hangir mikið til á herðum ungra leikmanna og ungra þjálfara. Það getur að mínu mati brugðið til beggja vona hjá þeim."
Leiðin úr Lengjunni er hlaðvarpsþáttur tileinkaður næst efstu deild karla í fótbolta. Þáttarstjórnendur eru Stefán Marteinn Ólafsson, Sverrir Örn Einarsson og Sölvi Haraldsson. Þeir velja tvo lykilmenn og einn sem gaman verður að fylgjast með úr hverju liði í Lengjudeildinni.
Lykilmenn: Adam Árni Róbertsson og Sindri Þór Guðmundsson
Adam Árni Róbertsson hefur fengið fyrirliðabandið hjá Grindavík og er horft til hans sem leiðtoga í liðinu. Það liggur fyrir að það búa mörk í kauða og hann er sömuleiðis hlaupagikkur og óþreytandi í pressu. Komi hann sér í gang í markaskorun snemma verða Grindvíkingar í góðum málum þetta sumarið. Grindvíkingar munu einnig leita í reynslu Sindra Þórs Guðmundssonar sem lék í fyrra með Reyni Sandgerði. Sindri á 87 leiki í efstu deild og kemur með dýrmæta reynslu inn í lið Grindavíkur.
Gaman að fylgjast með: Það eru nokkrir
Nöfnin eru mörg í liði Grindavíkur sem gaman verður að fylgjast með enda er liðið mjög ungt og hungrað í að sanna sig. Christian Bjarmi Alexandersson (2007) er gríðarlega spennandi vinstri bakvörður sem að fékk eldskírn sína í deildinni í fyrra. Í öftustu línu Grindavíkur verður sömuleiðis spennandi að sjá hvernig Sölva Snæ Ásgeirssyni (2008) reiðir af. Gríðarlega þroskaður ungur varnarmaður sem mun fá traustið frá Haraldi í sumar. Þá verður einnig mjög áhugavert að fylgjast með Skagastrákunum sem Haraldur sótti til Grindavíkur fyrir tímabilið. Ármann Ingi Finnbogason (2004) er spennandi vængmaður sem býr yfir góðri tækni og miklum hraða og mun án efa hrella varnir andstæðinga Grindvíkinga í sumarið.
Komnir:
Matias Niemelä frá Vestra á láni
Stefán Óli Hallgrímsson frá Víkingi Ó.
Arnar Smári Arnarsson frá Breiðabliki
Arnór Gauti Úlfarsson frá ÍR
Kristófer Máni Pálsson frá Breiðabliki
Sindri Þór Guðmundsson frá Reyni S.
Viktor Guðberg Hauksson frá Reyni S. (var á láni)
Árni Salvar Heimisson frá ÍA á láni
Breki Þór Hermannsson frá ÍA á láni
Ingi Þór Sigurðsson frá ÍA á láni
Farnir:
Aron Dagur Birnuson í Stjörnuna
Sigurjón Rúnarsson í Fram
Kristófer Konráðsson í Fram
Dagur Ingi Hammer Gunnarsson í Leikni
Einar Karl Ingvarsson í FH
Marinó Axel Helgason
Bjarki Aðalsteinsson
Ion Perelló til Spánar
Nuno Jorge Nobre Barbosa Malheiro til Ítalíu
Matevz Turkus til Slóveníu
Josip Krznaric til Slóveníu
Daniel Ndi (var á láni)
Eric Vales til Andorra
Ingólfur Hávarðarson í Reyni Sandgerði
Mathias Larsen í Þrótt V. (var á láni hjá Reyni)
Samningslausir:
Kwame Quee (1996)

Fyrstu þrír leikir Grindavíkur:
2. maí, Selfoss - Grindavík (JÁVERK-völlurinn)
9. maí, Grindavík - Fjölnir (Stakkavíkurvöllur)
16. maí, Þróttur R. -Grindavík (AVIS völlurinn)
Athugasemdir