mið 25. maí 2022 19:31
Brynjar Ingi Erluson
Mjólkurbikarinn: Fylkir lagði tíu leikmenn ÍBV
Fylkismenn eru komnir áfram í 16-liða úrslit
Fylkismenn eru komnir áfram í 16-liða úrslit
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Fylkir 2 - 1 ÍBV
1-0 Mathias Laursen Christensen ('44 )
2-0 Ásgeir Eyþórsson ('47 )
2-1 Alex Freyr Hilmarsson ('83 )
Rautt spjald: Tómas Bent Magnússon , ÍBV ('36) Lestu um leikinn

Fylkir tryggði sér sæti i 16-iða úrslitum Mjólkurbikars karla með því að leggja ÍBV að velli, 2-1. Eyjamenn léku manni færri síðasta klukkutímann eftir að Tómas Bent Magnússon fékk að líta rauða spjaldið.

Það var hart barist í fyrri hálfleiknum og urðu Eyjamenn fyrir mikilli blóðtöku er Tómasi var vísað af velli á 36. mínútu eftir að hann fór í harkalega tæklingu á Nikulási Val Gunnarssyni. Þetta var hans annað gula spjald og þar með rautt.

Átta mínútum síðar skoruðu Fylkismenn fyrsta markið. Mathias Christensen gerði það og á gríðarlega mikilvægum tímapunkti, rétt fyrir hálfleik. Hann hirti frákast eftir hornspyrnu og kom Fylkismönnum yfir.

Ásgeir Eyþórsson tvöfaldaði forystuna í byrjun síðari hálfleiks og aftur var það eftir hornspyrnu. Hann skallaði hornspyrnu Daða Ólafssonar í slá og inn.

Andri Rúnar Bjarnason taldi sig hafa komið Eyjamönnum aftur inn í leikinn nokkrum mínútum síðar er hann skoraði en markið var dæmt af vegna rangstöðu.

Eyjamenn náðu inn marki á endanum og kom það á 83. mínútu en Alex Freyr Hilmarsson skoraði eftir hornspyrnu. Liðin skiptust á færum eftir það en fleiri urðu mörkin ekki og lokatölur 2-1 fyrir Fylki sem fer í 16-liða úrslitin.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner