Cunha orðaður við þrjú félög - Garnacho til Chelsea? - Sjö á óskalistum Amorim - Hvað verður um Rashford? - Chelsea vill risaupphæð
   sun 25. júní 2023 21:12
Ívan Guðjón Baldursson
Besta deild kvenna: Breiðablik vann toppslaginn
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Mynd: Jónína Guðbjörg Guðbjartsdóttir

Breiðablik 2 - 1 Valur
1-0 Agla María Albertsdóttir ('3)
2-0 Arna Sif Ásgrímsdóttir ('44, sjálfsmark)
2-1 Ásdís Karen Halldórsdóttir ('53)


Lestu um leikinn: Breiðablik 2 -  1 Valur

Breiðablik tók á móti Val í stórleik í toppbaráttu Bestu deildarinnar og tóku heimakonur forystuna strax á þriðju mínútu þegar Agla María Albertsdóttir skoraði laglegt mark eftir að hafa leikið á Örnu Sif Ásgrímsdóttur.

Valskonur reyndu að svara fyrir sig en marktilraunirnar voru ekki nægilega góðar og lentu þær svo í miklum vandræðum með hápressuna frá Blikum. Það sköpuðust þó ekki hættuleg færi fyrr en Breiðablik tvöfaldaði forystuna eftir vandræðagang í vítateig Vals. Arna Sif fær skráð á sig sjálfsmark eftir að hafa fengið skot í sig frá Birtu Georgsdóttur sem virtist á leið framhjá.

Ásdís Karen Halldórsdóttir minnkaði muninn með glæsilegu marki snemma í síðari hálfleik. Hún fékk boltann úti á vinstri kanti og færði sig inn á völlinn áður en hún klíndi honum undir samskeytin með óverjandi skoti.

Blikar komust nálægt því að tvöfalda forystuna á ný en Fanneyju Ingu Birkisdóttur tókst að blaka boltanum í slána. Gestirnir úr Hlíðunum voru mikið með boltann á lokakafla leiksins en tókst ekki að finna glufur á gríðarlega öflugri vörn Breiðabliks.

Lokatölur því 2-1 fyrir Blikum sem tókst að leggja ríkjandi Íslandsmeistara af hólmi. 

Valur og Breiðablik eru jöfn á toppi Bestu deildarinnar með 20 stig eftir 10 umferðir.


Athugasemdir
banner
banner
banner