Hallgrímur Jónasson þjálfari KA staðfesti við Fótbolta.net í gær að félagið hafi rætt við færeyska landsliðsmanninn Jóan Símun Edmundsson um að ganga til liðs við þá í glugganum.
Lestu um leikinn: Keflavík 3 - 4 KA
„Við erum með opin augum, við erum að keppa á þremur vígstöðvum og vantar í vissar stöður. Það hefur verið talað við hann en ég veit bara ekki hvernig staðan er á því," sagði Hallgrímur við Fótbolta.net eftir 3 - 4 sigur á Keflavík í gær.
Jóan Símun Edmundsson er 32 ára gamall framherji sem getur líka verið fremsti miðjumaður. Hann á að baki 79 landsleiki og í þeim hefur hann skorað átta mörk.
Hann var síðast á mála hjá Beveren í Belgíu en samningur hans rann út í sumar og er hann því án félags sem stendur. Áður en hann fór til Beveren var hann hjá Armenia Bielefeld í Þýskalandi og skoraði 2020-21 eitt mark í fimm leikjum í þýsku Bundesligunni.
Hann og Hallgrímur þekkjast frá fornu fari því þeir spiluðu saman í Danmörku árið 2016.
„Ég hef sjálfur spilað með honum í OB í Danmörku og hann er hörkuleikmaður. Strákur sem getur skorað og hann er leikinn og fljótur. Hann hefur spilað í Bundesligunni og dönsku úrvalsdeildinni. Hann er virkilega flottur og við sjáum hvað setur," sagði Hallgrímur.
Breiðablik hefur einnig sýnt Edmundsson áhuga en er KA ekki með forskot því hann og Hallgrímur þekkjast frá fornu fari?
„Vonandi hjálpar það, nema honum finnist ég leiðinlegur ég bara veit það ekki," sagði Hallgrímur en hafa þeir talað saman? „Við höfum rætt saman og hann er flottur strákur eins og allflestir Færeyingar ef ekki allir," sagði hann að lokum.
Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er Breiðablik ekki lengur í myndinni og KA líklegur áfangastaður fyrir Edmundsson.