Íslandi gengur erfiðlega að vinna vináttulandsleiki en síðasta fimmtudagskvöld tapaðist leikurinn gegn Dönum í Herning 2-1. Kristján Guðmundsson, þjálfari Leiknis, fór yfir leikinn með Tómasi og Elvari í útvarpsþættinum Fótbolti.net á X-inu í dag.
„Það hefur auðvitað áhrif að vinna ekki leikina þó þeir séu vináttuleikir, það er alveg ljóst. Við eigum Grikkland, Noreg og Liechtenstein fram að móti og verðum að taka einhverja tvo leiki," segir Kristján. Hvernig fannst honum leikurinn á fimmtudaginn?
„Hann byrjaði ágætlega fyrir okkur og við sköpuðum aðeins opnari færi en Danirnir. Það var bara í byrjun. Eftir það tóku þeir yfir leikinn, sérstaklega í seinni hálfleik þegar þeir settu miklu meiri pressu á uppspilið hjá okkur. Það virtist slá okkur út af laginu sem varð til þess að við töpuðum oftar boltanum. Eftir annað markið þeirra var þessi leikur búinn."
„Varnarlega byrjuðum við allt í lagi en í seinni hálfleik losnaði um þetta og allt var opið. Pressan frammi virkaði ekki og varnarleikurinn leit ekki vel út. Við þurfum að verjast eins og lið og skilja menn ekki eftir í einn á einn stöðu. Sóknarlega nýttum við ekkert svæðin í kringum hafsentana og það var mjög dapurt."
„Í þessum leik á fimmtudaginn voru það lykilmennirnir sem klikkuðu, bestu mennirnir voru úti á túni."
Aron og Kolbeinn þurfa að komast í gírinn
„Ég man þá tíð þegar Ísland var að fara í leiki gegn Danmörku og maður vissi að það yrði pottþétt tap. Nú höfum við landslið þar sem við mætum Dönum og Grikkjum og maður hugsar að við getum unnið báða leikina. Það er af sem áður var og við eigum að vera þakklátur fyrir það lið sem við erum með. Á fimmtudaginn var samt margt sem var ekki gott," segir Kristján sem hefur áhyggjur af stöðu Arons Einars Gunnarssonar fyrirliða.
„Ég hef smá áhyggjur af Aroni, hann spilar lítið með Cardiff og mér fannst það sjást á hans leik þegar það dró af honum í seinni hálfleik. Aron Einar þarf að komast í gírinn. Það sem við lærðum af þessum leik er að lykilmennirnir verða alltaf að spila vel og það er ekki hægt að detta niður eins og til dæmis Kolbeinn gerir. Hann hefur alls ekki verið góður í leikjum á þessu ári, það er langt í frá. Alfreð (Finnbogason) tekur af honum stöðuna ef þetta heldur svona áfram."
Kristján segir að Alfreð og Kolbeinn hafi enn ekki náð að sannfæra sig um að þeir tveir geti spilað saman sem sóknarpar.
Þurfum að hafa Eið Smára með okkur út
„Ég var líka ekki nægilega ánægður með eitt í leiknum á fimmtudag, og strákarnir örugglega ekki heldur. Líkamstjáningin var ekki nægilega jákvæð. Við höfðum ekki nægilega gaman að þessu. Menn voru að horfa á hvorn annan og hugsa: 'Er þetta þér að kenna eða hvað er í gangi?' - Menn þurfa aðeins að hrista upp í því."
Kristjáni finnst skrítið að Eiður Smári Guðjohnsen hafi ekki verið valinn í þetta verkefni en landsliðsþjálfararnir töluðu um á fréttamannafundi að þeir teldu sig ekki þurfa að sjá hann í þessum leikjum.
„Við sáum það á fimmtudaginn að við þurfum að hafa Eið Smára með okkur út. Við héldum ekki boltanum í seinni hálfleik. Eiður þarf að koma inn í svona leiki og hjálpa strákunum upp á tærnar aftur ef þeir eru farnir að haga sér svona eins og þeir gerðu á fimmtudaginn. Eiður er það reyndur að hann hjálpar liðinu innan og utan vallar. Leikmenn bera mikla virðingu fyrir honum," segir Kristján.
Hannes á að fara strax í markið
Ögmundur Kristinsson hefur verið markvörður númer tvö í landsliðinu en hann hefur ekki náð að setja neina pressu á Hannes Þór Halldórsson. Þjálfararnir ákváðu þó að láta Ögmund spila á fimmtudaginn og Hannes var geymdur á bekknum.
„Ég skil þetta ekki betur þannig að Hannes verði tilbúinn fyrir EM og þá á hann auðvitað að fara í markið núna strax. Það kæmi mér ekki á óvart ef hann spilaði helminginn eða allan leikinn gegn Grikkjum og honum hjálpað að koma til baka með því að spila með landsliðinu. Ögmundur er góður markmaður en Hannes virkar betur með þessa vörn sem er í dag og það þarf að drífa Hannes inn í undirbúningi fyrir mótið," segir Kristján.
Hægt er að hlusta á landsliðsspjallið í heild sinni í spilaranum hér að ofan.
Athugasemdir