Newcastle leitar að mögulegum arftaka Isak - Man City aftur á eftir Livramento - Shaw til Sádi-Arabíu?
   lau 26. júlí 2025 11:45
Brynjar Ingi Erluson
Ætla að reisa styttu til minningar um Jota
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Enska úrvalsdeildarfélagið Liverpool hefur staðfest áform um það hvernig félagið ætlar að minnast Diogo Jota og André Silva, sem létu lífið í hræðilegu bílslysi á Spáni í byrjun mánaðarins.

För þeirra bræðra var haldið í ferju sem átti að flytja Jota til Englands, en hann var á leið inn í undirbúningstímabilið með Liverpool. Honum var ráðlagt að taka ferjuna í stað þess að fljúga vegna meiðsla sem hann varð fyrir í leik gegn Chelsea á síðustu leiktíð.

Dekk sprakk á Lamborghini-bifreið Jota sem varð til þess að bíllinn valt og hafnaði utanvegar.

Leikmenn, stjórnarmeðlimir, þjálfarar og stuðningsmenn gerðu sérstakt leiði fyrir utan Anfield þar sem það kvaddi þá bræður með kortum, blómvöndum og öðrum hlutum, en Liverpool hefur nú greint frá áformum sínum hvernig best sé að halda minningu þeirra á lofti.

Ákveðið hefur verið að breyta blómunum í áburð og verður afraksturinn blómabeð sem verður komið fyrir á Anfield, æfingasvæði Liverpool og víðar. Hinir hlutirnir verða endurunnir og síðan notað til þess að reisa styttu til minningar um Diogo og André. Þeirri styttu verður komið fyrir á Anfield.

Tímabundið svæði hefur verið sett upp fyrir utan Anfield og geta því gangandi gestir áfram vottað þeim bræðrum virðingu sína.

Stuðningsmenn sem vilja merkja treyjuna með 'Diogo Jota 20' munu áfram geta það og rennur ágóðinn af merkingunni óskiptur í góðgerðasamtök Liverpool, LFC Foundation, og munu samtökin í leiðinni skapa grasrótarnámskeið í nafni Jota.

Liverpool segir þá að stuðningsmenn geti áfram heiðrað minningu Jota á leikjum á undirbúningstímabilinu með borðum og öðru eins, og þá mun liðið spila í treyjum með sérstöku merki til heiðurs Jota.

Þegar Liverpool mun kynna nýjar Adidas-treyjur sínar um mánaðamótin munu leikmenn heiðra minningu Jota með 'Forever 20' merki innan á treyjunum og utanyfir jakkanum á komandi tímabili.

Félagið ætlar að minnast þeirra bræðra sérstaklega á fyrsta heimaleik Liverpool gegn Bournemouth 15. ágúst. Mínútuþögn verður haldin og þá verður sérstök mósaík sem unnin verður með stuðningsmönnunum, en félagið mun greina betur frá því á næstu dögum.


Athugasemdir
banner