Jóhannes Karl Guðjónsson, þjálfari AB í Danmörku, segir ákvörðun Ágústs Eðvalds Hlynssonar um að rifta samningi sínum hafa komið öllum hjá félaginu í opna skjöldu.
Ágúst var kynntur hjá Bestu deildar liði Vestra í dag eftir að hafa spilað með AB síðustu tvö tímabil.
Vestri missti Daða Berg Jónssonar aftur til Víkings og fékk því Ágúst til að fylla í skarðið.
Jóhannes Karl hafði þjálfað Ágúst síðustu tvö tímabil og að þó ákvörðunin hafi verið óvænt þá muni hann saknah ans.
„Við erum ótrúlega leiðir að missa Ágúst og kom ákvörðun hans okkur öllum í opna skjöldu. Því miður geta svona hlutir gerst í fótbolta og við virðum það við Ágúst að hann vilji fara aftur heim til Íslands.“
„Sem betur fer erum við vel mannaðir á miðsvæðinu og erum þá líka með nokkra unga og efnilega leikmenn sem eru að koma upp, þannig við hlökkum mikið til að sjá þá taka skrefið,“ sagði Jói Kalli á heimasíðu AB.
Sérstakt riftunarákvæði var í samningi Ágústs sem hann ákvað að virkja.
„Hann var með klásúlu í samningnum sem hægt var að virkja með því að snúa aftur til Íslands og þetta uppfyllti þau skilyrði. Þegar allt kemur til alls er þetta ákvörðun leikmannsins, en við munum sakna hans og óskum honum alls hins besta hjá nýju félagi,“ sagði Jen Chang, yfirmaður íþróttamála hjá AB.
Athugasemdir