Breiðablik fór á Origo völlinn í kvöld og unnu 0-1 sigur á Val í 6. umferð Pepsí Max-deildar karla. Gunnleifur Gunnleifsson markvörður Breiðabliks sagði liðið hafa verið miklu betra og átt sigurinn fyllilega skilið.
Lestu um leikinn: Valur 0 - 1 Breiðablik
„Mér finnst við vinna verðskuldað, Hannes bara bjargaði þeim frá niðurlægingu finnst mér. Það er auðvitað bara frábært að koma á heimavöll Íslandsmeistarana og vinna. Frá fyrstu mínútu fannst mér við miklu betri, sköpum fullt af færum og þessi frammistaða var til fyrirmyndar."
Breiðablik er með 13 stig í öðru sætinu, 3 stigum frá toppliði ÍA eftir fyrstu 6 leikina og Gulli er ánægður með byrjun liðsins á þessu tímabili.
„Það eru flottir strákar í þessu liði, við sýndum bara góðan leik og frammistöðu. Fórum hærra á völlinn og sýndum hvað við erum góðir í fótbolta. Þetta er fín byrjun, flott frammistaða í upphafi móts og það er enginn smá leikur næst, þar ætlum við að vinna FH."
Athugasemdir