Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
banner
   lau 26. september 2020 12:40
Ívan Guðjón Baldursson
Koeman um Suarez: Ég er ekki vondi karlinn
Mynd: Getty Images
Mynd: Getty Images
Ronald Koeman sat fyrir svörum á blaðamannafundi fyrir frumraun sína með Barcelona í keppnisleik. Barca tekur á móti Villarreal annað kvöld í fyrstu umferð nýs keppnistímabils í La Liga.

Koeman var meðal annars spurður út í Luis Suarez, Lionel Messi, Riqui Puig og Ansu Fati á fundinum.

„Ég hef verið málaður upp sem vondi karlinn í myndinni en það er ekki raunin. Ég hringdi í Luis og hef sýnt honum virðingu sem leikmanni og manneskju. Hann hefur æft með hópnum frá fyrsta degi," sagði Koeman.

„Ég sagði við hann að það gæti verið erfitt fyrir hann að komast inn í byrjunarliðið, en ef hann yrði eftir þá myndi ég treysta á hann. Þetta er ekki aðeins mín ákvörðun heldur ákvörðun sem klúbburinn tók. Mitt markmið er að breyta liðinu og það eru ungir leikmenn hérna sem spila vel."

Lionel Messi, sem hefur átt í rifrildum við Barcelona, var sár þegar hann sá vin sinn yfirgefa félagið. Hann gaf út yfirlýsingu þar sem hann gagnrýndi hversu illa var farið með Suarez eftir allt sem hann hefur gert fyrir félagið.

„Það er eðlilegt að leikmenn verði daprir þegar vinur þeirra yfirgefur félagið en það mikilvægasta fyrir mig er hvernig Messi gengur á æfingum. Hann leggur sig allan fram og hefur sýnt það á æfingum að hann muni halda áfram að vera lykilmaður. Ég efast ekki um Messi."

Koeman vill lána efnilega miðjumanninn Puig út og telur Ansu Fati vera ómissandi leikmann fyrir framtíð félagsins.

„Það er mikil samkeppni í stöðunni hans Riqui og leikmaður á hans aldri ætti að fá mikinn spiltíma. Ef hann vill vera áfram og berjast fyrir sæti sínu þá má hann það. Ansu er ómissandi fyrir þetta félag, hann býr yfir miklum hæfileikum og fáir leikmenn á hans aldri hafa það sem þarf til að spila fyrir Barca. Hann er framtíðarleikmaður fyrir félagið.

„Við munum skipta mikið af leikmönnum út á milli leikja þar sem við eigum oft þrjá leiki á viku."

Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner