Maguire gæti elt McTominay til Napoli - Kolo Muani horfir til Englands - Nkunku vill fara frá Chelsea
   fim 27. febrúar 2020 09:30
Aðsendir pistlar
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
Ertu að hætta? Ok, bæ!
Garðar Örn Hinriksson skrifar
Aðsendir pistlar
Aðsendir pistlar
Síðasti leikurinn á Stokkseyri.
Síðasti leikurinn á Stokkseyri.
Mynd: .
Mynd: .
Mynd: .
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það er 24. júní 2016 og ég blæs í flautuna í síðasta skiptið. Ég er staddur á Stokkseyrarvelli og var að enda við að flauta til leiksloka í leik Stokkseyrar gegn Afríku í neðstu deild karla. Ég var löngu búinn að ákveða það að enda minn feril á vellinum þar sem hann hófst – á Stokkseyrarvelli, en ég bjó í þessu fallega þorpi þar til ég var 15 ára gamall. Eftir leikinn stilltu leikmenn Stokkseyrar sér upp í heiðursvörð mér til heiðurs þar sem ég var svo síðan verðlaunaður af Stokkseyringum með fallegri styttu sem á stóð, „Þú ert sá Stokkseyringur sem náð hefur lengst á sviði knattspyrnunnar á Íslandi. Takk fyrir vel unnin störf og takk fyrir að halda uppi nafni Knattspyrnudeildar Stokkseyrar. Besti knattspyrnudómari landsins hefur blásið í síðasta sinn í dómaraflautuna.” Takk kærlega fyrir mig Stokkseyringar!

74. ársþing KSÍ var haldið á dögunum þar sem meðal annars voru fjórir leikmenn A landsliðs kvenna heiðraðir sem höfðu náð 100 landsleikjum. Það er magnað afrek að ná 100 landsleikjum og áttu þessar stelpur það svo sannarlega skilið að vera heiðraðar. Á sama ársþingi var Lúðvíki S. Georgssyni færður heiðurskross KSÍ fyrir störf sín í knattspyrnuheiminum. Hann var einnig sæmdur gullmerki KSÍ og heiðurskross ÍSÍ eftir að hann hætti í stjórn KSÍ árið 2014 en hann sat í stjórn knattspyrnusambandsins frá árinu 1996 til 2014, þar sem hann var m.a. varaformaður. Á heimasíðu KSÍ stóð eftir afhendinguna: „Knattspyrnuhreyfingin færi Lúðvík miklar og verðskuldaðar þakkir fyrir hans mikilvægu störf í þágu íslenskrar knattspyrnu”. Aðrir sem hafa fengið viðurkenningu frá knattspyrnusambandinu undanfarin ár fyrir störf sín fyrir sambandið eru meðal annars Guðrún Inga Sívertsen (gullmerki KSÍ), Vignir Már Þormóðsson (gullmerki KSÍ), og Guðmundur Pétursson (heiðurskross KSÍ), bara svona til að nefna örfáa. Ég nenni ekki að nefna alla síðastliðin ár. Það yrði langur og leiðinlegur listi að lesa. Einnig hefur Guðmundur Benediktsson fengið sérstaka fjölmiðlaviðurkenningu frá sambandinu og Gaupi á Stöð 2 af öllum mönnum gullpenna sambandsins.

Ég hóf feril minn sem knattspyrnudómari fyrir alvöru árið 1989 og lagði flautuna á hilluna árið 2016. Hjá knattspyrnusambandinu starfaði ég frá 1994 til 2016. Á þessum tíma var ég alþjóðlegur dómari frá 2005 til 2009 og efstudeildadómari frá 1998 til 2016. Maður hefði haldið að eftir allan þennan tíma fengi maður einhverskonar viðurkenningu eða þakklætisvott frá knattspyrnusambandinu fyrir störf sín en svo er ekki og það þykir mér óskaplega dapurt. Reyndar er hálf ömurlegt hvernig er komið fram við dómara sem hafa eytt stórum hluta ævi sinnar við að vinna fyrir sambandið þegar þeir hætta. Það er ekki einu sinni sagt takk! Og þetta virðist eiga við um alla dómara sem hafa hætt svo ég viti til. Alþjóðlegir dómarar, sem eru í raun landsliðsmenn á meðal dómara, fá ekki einu sinni þakklætisvott frá sambandinu. Einungis kaldar kveðjur beint í andlitið eftir áralangt starf.
Hurðinni skellt beint á nefið þegar maður gengur út! Ég er ekki að fara fram á það að fara á fund hjá knattspyrnusambandinu og fara heim með fullar hendur af viðurkenningum og gjöfum. Mér finnst bara að KSÍ mætti sýna dómurum meiri virðingu en þeir gera og sýna það hversu mikilvægir þeir eru. Dómarar eru ekkert minna mikilvægir en leikmenn sem hafa náð 100 landsleikjum eða fólk sem hefur unnið önnur mikilvæg störf fyrir sambandið. Þetta er í raun, “Ertu að hætta? Ok, bæ!

Ég á ekki von á því að þessi pistill breyti nokkru og líklega er öllum sama um það hvort dómara sé þakkað fyrir störf sín með viðurkenningum eða ekki. Þetta skiptir dómara hinsvegar máli, að hann finni það að hann hafi verið mikils metinn fyrir þau störf sem hann vann fyrir knattspyrnusambandið. Ég tala nú ekki um allan þann tíma sem fór í dómgæsluna. Þeir voru ansi margir dagarnir sem maður var að heiman, dæmandi úti á landi eða úti í heimi. Ég vona að sambandið hysji upp um sig buxurnar og breyti þessu og að þeir dómarar sem hætta í framtíðinni fái einhverskonar viðurkenningu fyrir störf sín. Það þarf ekki að vera mikið en það þarf að vera eitthvað svo maður geti gengið fyllilega sáttur frá borði og sagt stoltur að þetta hafi maður fengið sem viðurkenningu fyrir störf sín fyrir KSÍ.

Ef enginn væri dómarinn, þá væri ekkert knattspyrnusambandið!
Garðar Örn Hinriksson
Athugasemdir
banner
banner