Heimild: KA
Snorri Kristinsson, fæddur 2009, var meðal ungra leikmanna KA sem fóru á reynslu til sænska stórveldisins Malmö á dögunum.
Snorri á tvo leiki að baki með KA í efstu deild og fer til Svíþjóðar ásamt Sigurði Nóa Jóhannssyni, sem er fæddur 2010. Snorri og Sigurður eiga þrjá leiki hvor að baki fyrir U15 landslið Íslands.
Auk þeirra fara tvær stúlkur fæddar 2010 með til Malmö, þær Bríet Fjóla Bjarnadóttir og Hafdís Nína Elmarsdóttir. Bríet Fjóla spilaði sinn fyrsta meistaraflokksleik árið 2023 og kom við sögu í 15 leikjum á síðasta tímabili. Hafdís Nína hefur spilað með 3. flokki Þór/KA og fór fyrr á þessu ári á láni til Dalvíkur/Reynis og gæti spilað með liðinu í sumar.
Þær eiga fimm leiki að baki hvor fyrir yngri landsliðin, þar sem Hafdís Nína hefur skorað þrjú mörk í tveimur leikjum með U16 landsliðinu
Bríet Fjóla varð fyrir tveimur árum sú yngsta til að spila í Bestu deild kvenna á þessari öld, þegar hún kom við sögu í 3-2 sigri Þórs/KA gegn Breiðabliki aðeins 13 ára gömul.
Fjórir þjálfarar fylgdu með í ferðina til Svíþjóðar þar sem þeir skoðuðu aðstæður hjá Malmö, sem er sigursælasta félag í sögu sænska boltans. Félagið setti kvennalið á laggirnar fyrir fimm árum sem hefur farið upp um deild á hverju ári og leikur nú í efstu deild.
„Ferðin tókst frábærlega og ljóst að allir aðilar hafa lært mikið af stórliði Malmö," segir meðal annars í frétt á vefsíðu KA um ferðalagið. „Ferðin tókst afar vel, enda voru móttökurnar hjá Malmö FF til fyrirmyndar."
Akademían hjá Malmö er ein sú fremsta í allri Skandinavíu og mikið hægt að læra þar.
Arnór Sigurðsson og Daníel Tristan Guðjohnsen eru á mála hjá Malmö.
Athugasemdir