
Norska liðið Brann er komið áfram í næstu umferð í forkeppni Meistaradeildar Evrópu kvenna eftir að það vann Inter, 2-1, í miklum Íslendingaslag í Mílanó í dag.
Diljá Ýr Zomers byrjaði hjá Brann á meðan Cecilía Rán Rúnarsdóttir og Karólína Lea Vilhjálmsdóttir byrjuðu hjá Inter.
Karólína var að spila fyrsta keppnisleik sinn með Inter og stimplaði sig inn með stæl með góðu marki strax á 7. mínútu leiksins, en sex mínútum síðar svaraði Diljá Ýr með öðru marki sínu fyrir Brann síðan hún kom frá Leuven.
Signe Gaupset gerði annað mark Brann snemma í síðari hálfleiknum og dugði það til sigurs.
Brann fer áfram í næstu umferð og mætir þar annað hvort Val eða Braga, en tapliðið úr þeim leik spilar við Inter í leik um sæti í Evrópubikarnum.
Ísabella Sara Tryggvadóttir lagði upp fimmta og síðasta mark Rosengård í öruggum 5-0 sigri á Ljuboten frá Norður-Makedóníu.
Hún kom inn af bekknum á 81. mínútu og lagði upp markið tíu mínútum síðar.
Rosengård spilar við SFK eða Leuven í úrslitum.
Sædís Rún Heiðarsdóttir lék síðasta hálftímann í 1-0 sigri Vålerenga á HJK frá Finnlandi.
Vålerenga mætir Slavía Prag í úrslitum, en mótið er spilað í Finnlandi.
Athugasemdir