Rio Ngumoha varð í kvöld yngsti markaskorari í sögu Liverpool þegar hann kom inn af bekknum til að gera sigurmarkið gegn Newcastle United.
Ngumoha var skipt inn á 96. mínútu í stöðunni 2-2 og skoraði hann sigurmarkið fjórum mínútum síðar eftir frábæra sókn Liverpool.
Hann er 16 ára og 361 dags gamall og bætir met Ben Woodburn frá 2016 um einn og hálfan mánuð. Ngumoha er einum degi eldri heldur en Wayne Rooney var þegar hann skoraði sigurmark Everton gegn Arsenal í október 2002.
Michael Owen er þar með orðinn þriðji yngsti leikmaðurinn til að skora fyrir Liverpool og sá næstyngsti í ensku úrvalsdeildinni. Raheem Sterling er svo í fimmta sæti yfir yngstu leikmenn til að hafa skorað í keppnisleik fyrir félagið.
Ngumoha gekk til liðs við Liverpool í fyrra og kom við sögu í sínum fyrsta keppnisleik með liðinu í janúar. Í þeim leik varð hann næstyngsti leikmaður sögunnar til að spila keppnisleik fyrir félagið.
Ngumoha kom til Liverpool úr röðum uppeldisfélags síns Chelsea. Hann hefur verið lykilmaður í unglingalandsliðum Englands og verður gríðarlega spennandi að fylgjast með þróun hans á næstu árum.
25.08.2025 21:48
Van Dijk: Rio þarf að vera hógvær
Athugasemdir