Það komu nokkrir Íslendingar við sögu í leikjum dagsins utan landsteinanna, þar sem Ísak Andri Sigurgeirsson lagði upp sigurmarkið fyrir Norrköping.
David Moberg Karlsson skoraði bæði mörk Norrköping á útivelli gegn Öster og lagði Ísak Andri seinna markið upp. Staðan hélst 0-2 allt þar til heimamenn í liði Öster minnkuðu muninn á lokakaflanum. Lokatölur 1-2.
Arnór Ingvi Traustason var einnig í byrjunarliði Norrköping og var Jónatan Guðni Arnarsson ónotaður varamaður. Þetta var dýrmætur sigur fyrir Norrköping, sem er núna sjö stigum fyrir ofan fallsvæðið í efstu deild sænska boltans.
Róbert Frosti Þorkelsson kom þá inn af bekknum þegar GAIS tapaði fyrir toppliði Mjällby á heimavelli. Mjällby er spútnik lið tímabilsins í Allsvenskan þar sem liðið er með átta stiga forystu í titilbaráttunni.
GAIS er áfram í harðri baráttu um Evrópusæti, með 35 stig eftir 21 umferð - heilum fimmtán stigum á eftir Mjällby.
Sveinn Aron Guðjohnsen fékk að spila síðasta stundarfjórðunginn þegar Sarpsborg tapaði heimaleik gegn Kristiansund í efstu deild í Noregi. Þetta var fimmti tapleikurinn í röð hjá Sarpsborg.
Eftir úrslit dagsins er aðeins eitt stig sem skilur á milli liðanna tveggja í norsku fallbaráttunni. Sarpsborg er aðeins tveimur stigum frá fallsvæðinu þegar tímabilið er rétt rúmlega hálfnað.
Að lokum tapaði Tychy gegn Stal Mielec í næstefstu deild í Póllandi en Oliver Stefánsson var ekki í hóp. Tychy er með 11 stig eftir 7 umferðir.
Öster 1 - 2 Norrköping
GAIS 0 - 2 Mjallby
Sarpsborg 0 - 1 Kristiansund
Tychy 0 - 1 Stal Mielec
Athugasemdir