þri 27. september 2022 12:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hefði ekki skilið KA ef munnlega samkomulagið væri við KR
Arnar Grétarsson, fyrrum þjálfari KA.
Arnar Grétarsson, fyrrum þjálfari KA.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Það voru stórar fréttir seint í síðustu viku þegar tilkynnt var um að Arnar Grétarsson væri ekki lengur þjálfari KA. Hallgrímur Jónasson, sem hafði verið aðstoðarmaður hans, var ráðinn aðalþjálfari liðsins í hans stað.

Samkvæmt heimildum Fótbolta.net er Arnar að taka við Val en Ólafur Jóhannesson lætur af störfum eftir tímabilið.

„Ég er kominn með munnlegt samkomulag við annað félag, án þess að vera búinn að skrifa undir neitt og það hlýtur að vera ástæðan fyrir þessu," sagði Arnar í samtali við RÚV.

Rætt var um þetta stóra mál í útvarpsþættinum á laugardag en þar var komið inn á það að þetta væri erfið staða fyrir Arnar að vera í þar sem KA er í þriðja sæti og Valur í fjórða sæti Bestu deildarinnar. Ef Víkingar vinna FH í bikarúrslitum þá mun þriðja sætið gefa Evrópusæti fyrir næsta tímabil.

Tómas Þór Þórðarson hefði líka skipt um þjálfara ef hann væri að stjórna KA í þessari stöðu. „KA er í þriðja sæti þegar fimm leikir eru eftir. Ef Víkingur vinnur FH þá er þriðja sætið Evrópusæti. Þá getur KA náð því. Liðið fyrir neðan KA heitir Valur, sem er einmitt liðið sem Arnar er væntanlega að taka við."

„Munurinn er níu stig og Valsmenn eru ekki líklegir til að vinna rest og KA að tapa tíu stigum. Ég er meðvitaður um það, en það skiptir ekki máli þar sem staðan er mjög skrítin. Ég er ekki að vega að heiðri Arnars því hann er ekki algjör toppmaður en þetta setur hann í mjög skrítna stöðu. Þegar KA og Valur mætast þá hefur Arnar hagsmuni af því að Valur vinni KA. Þetta er skrítið."

Tómas segir að Arnar sé algjör fagmaður og heiðursmaður, en hann sé þarna í skrítinni stöðu. „Ef hann væri með munnlegt samkomulag við KR þá hefði ég ekki gert þetta, þá skiptir þetta ekki máli. Næsta lið er Valur og þá er þetta eiginlega ekki hægt," sagði Tómas í þættinum.

Rætt var um það í þættinum að Arnar hefði hækkað rána hjá KA og gert ótrúlega flotta hluti fyrir félagið á tíma sínum á Akureyri en hægt er að hlusta á alla umræðuna hér fyrir neðan.
Útvarpsþátturinn - Stóru fréttirnar að norðan, landsliðin og bestir í Bestu
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner