Guimaraes, Silva, Van Persie, Yamal, Gil, Giroud og fleiri í slúðurpakkanum
   þri 27. september 2022 13:58
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Leikmaður ársins í Lengjudeildinni: Eins og ég hafi alltaf verið hér
Sigríður Lára Garðarsdóttir.
Sigríður Lára Garðarsdóttir.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Í leik með FH.
Í leik með FH.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
FH leikur í Bestu deildinni á næsta tímabili.
FH leikur í Bestu deildinni á næsta tímabili.
Mynd: Fótbolti.net - J.L.
Sigríður Lára Garðarsdóttir er leikmaður ársins í Lengjudeildinni. Hún var ótrúlega mikilvæg fyrir FH sem fór taplaust í gegnum deildina og endaði á því að vinna hana.

„Við settum okkur markmið fyrir tímabil að komast upp og það er frábært að hafa náð því," segir Sigríður Lára í samtali við Fótbolta.net.

„Að fara síðan taplausar í gegnum tímabilið var alls ekki auðvelt því hver einasti leikur var erfiður. Það var síðan geggjað að enda tímabilið á að vinna deildina. Þannig það má segja það að öllum markmiðum tímabilsins hafi verið náð."

Ótrúlega ánægð hjá FH
Sísí Lára, eins og hún er alltaf kölluð, er gríðarlega öflugur miðjumaður sem lék fyrst með FH sumarið 2020. Hún fór í Val á síðasta ári en sneri aftur í Kaplakrika um mitt sumar. Henni líður gríðarlega vel í FH og verður þar að öllum líkindum áfram.

„Ég er ótrúlega ánægð hjá FH og það hefur verið tekið vel á móti mér. Mér líður eins og ég hafi alltaf verið hér. FH er ótrúlega flottur klúbbur með frábæra aðstöðu og það er allt til alls hér. Það er líka mikið af öflugu fólki sem starfar í kringum félagið og mikill metnaður í að gera hlutina vel."

Það voru allir að stefna í sömu átt
Hún segir liðið hafa lært mikið af síðustu leiktíð þegar þriðja sætið var niðurstaðan.

„Ég held að bæði við leikmenn og þjálfarar höfum lært ótrúlega mikið frá síðasta tímabili og erum klárlega reynslunni ríkari. Lykillinn að þessum árangri tel ég vera hvað leikmenn og þjálfarar voru fókuseruð og samstíga á markmiðin allt tímabilið. Það voru allir að stefna í sömu átt, allar að æfa vel og leggja á sig mikla vinnu. Þetta er einstaklega góður og samheldinn hópur," segir Sísí Lára.

FH og Tindastóll áttust við í lokaumferðinni í hreinum úrslitaleik um efsta sæti deildarinnar. Jafntefli var niðurstaðan og því varð FH meistari.

„Tindastóll er gríðarlega gott lið með frábæran þjálfara og voru á heimavelli þannig við vissum að við værum að fara í gríðarlega erfitt verkefni. En við vorum vel undirbúnar fyrir leikinn og staðráðnar í að klára tímabilið með bikar. Það var því ótrúlega góð tilfinning þegar dómarinn flautaði leikinn af."

Ég er mjög spennt fyrir því og hlakka til
Sísí Lára, sem á að baki 20 landsleiki með Íslandi, sagði frá því í fyrra að hún væri með liðagigt. Hún segir að það gangi vel að takast á við það og spila fótbolta á sama tíma.

„Það hefur gengið vel og er ég alltaf að læra betur inn á líkamann. Þetta er bara eitthvað sem ég þarf að lifa með og vil ekki að sjúkdómurinn skilgreini mig. Ég er við góða heilsu, get gert allt sem mig langar til og held áfram að lifa lífinu," segir Sísí sem er spennt fyrir því að leika í efstu deild á ný á næstu leiktíð.

„Ég er mjög spennt fyrir því og hlakka til. Það er markmið hjá félaginu að festa sig í sessi í efstu deild og það eru spennandi tímar framundan hjá FH. Það er mikill hugur í liðinu að gera vel."
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner