Aston Villa horfir til Sunderland - Real Madrid ætlar að fá Konate - Anderson ekki til sölu
   lau 27. september 2025 11:50
Brynjar Ingi Erluson
Hefur engar áhyggjur af Guehi - „Fullkomlega sannfærður“
Mynd: EPA
Mynd: EPA
Oliver Glasner, stjóri Crystal Palace, segist ekki hafa haft neinar áhyggjur af enska varnarmanninum Marc Guehi eftir að félagaskipti hans til Liverpool duttu upp fyrir sig undir lok gluggans.

Palace neitaði að leyfa Guehi að fara á lokadegi gluggans þrátt fyrir að hafa náð samkomulagi við Liverpool.

Guehi var í læknisskoðun er honum var tjáð að snúa aftur til Palace. Varnarmaðurinn var leiður að komast ekki til Englandsmeistarana, en var fljótur að komast yfir það.

„Ég hef engar áhyggjur af þessu. Ég er fullkomlega sannfærður og hef ég nefnt þetta mörgum sinnum að á meðan Marc er að spila fyrir Crystal Palace þá mun hann gefa allt sitt. Þetta er nákvæmlega það sem ég býst við frá honum í dag.“

„Ég er sannfærður um að hann muni sýna þetta aftur. Hann er ótrúlegur leikmaður sem er í ótrúlegu formi. Þannig ég býst við frábærum leik frá honum. Auðvitað átti ég samtöl við Marc og kannski bjuggust þið við að það yrði langt spjall, en þetta var einfalt og stutt. Við töluðum saman í allt sumar og auðvitað þegar glugganum var lokað en það voru allt saman fimm mínútna samtöl.“

„Á hinn bóginn velti ég fyrir mér hvers vegna það sé svona magnað að standa við gerða samninga. Það sýnir kannski hvers konar tímum við lifum á. Ef þú skrifar undir samning þá er það vaninn að þú efnir þann samning, en okkur er hrósað fyrir að gera það sem við eigum að gera. Þetta ætti að vera andstæðan. Við eigum að skella skuldinni á fólk sem stendur ekki við samninga.“

„Auðvitað var hann örlítið vonsvikinn í byrjun, en hann sagði: „Nei, þetta er í góðu lagi. Ég er ánægður hér, er hrifinn af liðinu, þjálfarateyminu og félaginu. Ég kem frá Suður-Lundúnum, þannig þetta er í góðu lagi. Ég mun gera mitt besta hér“ og það er nákvæmlega það sem ég vissi að myndi gerast,“
sagði Glasner.

Guehi verður væntanlega í byrjunarliðinu er Palace mætir Liverpool á Selhurst Park í dag. Liverpool er á toppnum með fullt hús stiga en Palace í 5. sæti með 9 stig.
Athugasemdir
banner
banner