Rashford yfirgefur Man Utd - Tottenham á eftir Alberti
   mán 28. mars 2022 15:29
Elvar Geir Magnússon
Van Gaal: Man Utd er markaðsfyrirbæri en ekki fótboltafélag
Louis van Gaal, landsliðsþjálfari Holland.
Louis van Gaal, landsliðsþjálfari Holland.
Mynd: EPA
Louis van Gaal landsliðsþjálfari Hollands segir að Erik tan Hag ætti að íhuga það að hafna starfinu hjá Manchester United því félagið sé 'markaðsfyrirbæri' en það væri betra fyrir hann að fara í fótboltafélag.

Manchester United er í stjóraleit og hefur rætt við Ten Hag sem er einn af þeim sem kemur til greina til að taka við af Ralf Rangnick í sumar.

Van Gaal var rekinn frá Manchester United eftir að hafa unnið FA-bikarinn með liðinu 2016 en hann er ekki viss um að það yrði skynsamlegt fyrir Ten Hag að taka við á Old Trafford.

„Erik ten Hag er frábær þjálfari en Manchester United er markaðsfyrirbæri. Það er erfitt val fyrir þjálfara. Það væri betra fyrir hann að fara í fótboltafélag," segir Van Gaal.

„Ég ætla ekki að ráðleggja honum en hann verður að velja fótboltafélag en ekki markaðsfyrirbæri."

Ten Hag hefur stýrt Ajax í fimm tímabil og unnið hollenska meistaratitilinn tvívegis. Hann kom Ajax í undanúrslit Meistaradeildarinnar 2019. Ajax er sem stendur með tveggja stiga forystu í hollensku úrvalsdeildinni.

Mauricio Pochettino stjóri PSG, Luis Enrique þjálfari spænska landsliðsins og Jule Lopetegui hjá Sevilla hafa einnig verið orðaðir við stjórastöðuna á Old Trafford. Óvíst er hvort United verður með í Meistaradeildinni á næsta tímabili.
Athugasemdir
banner
banner
banner