Malen, Maguire, Rashford, Greenwood, Yoro, Eriksen og fleiri góðir í slúðri dagsins
   fim 28. maí 2020 09:00
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Danski boltinn byrjar í dag: Það sem þú þarft að vita
Mikael Neville Anderson er í toppliði Midtjylland.
Mikael Neville Anderson er í toppliði Midtjylland.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ragnar Sigurðsson.
Ragnar Sigurðsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Jón Dagur Þorsteinsson.
Jón Dagur Þorsteinsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Hjörtur Hermannsson.
Hjörtur Hermannsson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Frederik Schram.
Frederik Schram.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Elís Þrándarson.
Aron Elís Þrándarson.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Viktor Fischer.
Viktor Fischer.
Mynd: Getty Images
Pyry Soiri.
Pyry Soiri.
Mynd: instagram
Í dag fer danska úrvalsdeildin aftur af stað eftir tæplega þriggja mánaða hlé vegna kórónuveirufaraldursins. Það er einn leikur á dagskrá í dag þegar Íslendingalið AGF tekur á móti Randers. Jón Dagur Þorsteinsson leikur með AGF.

Leikið verður fyrir luktum dyrum, en í leiknum í kvöld verða stuðningsmenn sýndir á risaskjám þannig að leikmenn og áhorfendur heima geti séð þá. Notast verður við Zoom myndbandskerfið.

Það verður væntanlega meiri áhugi en áður á dönsku úrvalsdeildinni þar sem hún er ein af fáum deildum sem verða í gangi. Svo í næsta mánuði fara fleiri deildir að rúlla, þar á meðal hér á Íslandi og líklega á Englandi.

Danska 1. deildin hefst svo á morgun, en í dönsku 1. deildinni er Kjartan Henry Finnbogason á toppnum með Vejle. Hann er markahæsti leikmaður deildarinnar. Úrvalsdeild kvenna í Danmörku byrjar svo fyrstu helgina í júní.

Hvað þarftu að vita áður en danska úrvalsdeildin byrjar aftur að rúlla?

Staðan?
Staðan er þannig að Midtjylland er á toppnum með góða forystu, nánar tiltekið 12 stiga forystu á næsta lið sem er FC Kaupmannahöfn. Það virðist vera þannig að Midtjylland er langsterkasta liðið, og FCK er langbesta liðið þar á eftir. AGF kemur nefnilega í þriðja sæti tíu stigum á eftir FCK, en svo er pakkinn jafnari eftir það. Gaman er að því að fjögur efstu liðin eru öll Íslendingalið.

Það virðist allt stefna í það að Midtjylland taki sinn þriðja meistaratitil frá upphafi, en það er nóg eftir og það eru ákveðnar spurningar sem liggja í loftinu. Sú stærsta er náttúrulega hvernig þetta langa hlé fór í liðin?

Ef litið er á neðri hluta deildarinnar er Silkeborg á botninum, tveimur stigum frá Esbjerg, og fjórum stigum frá Hobro. Lengra er í næstu lið, en Hobro er sjö stigum á eftir liðinu í 11. sæti, Íslendingaliðinu SönderjyskE.

Hérna er hægt að sjá stöðuna í deildinni.

Flókið, mjög flókið kerfi
Fyrir 2015/16 tímabilið var liðum deildarinnar fjölgað úr 12 í 14. Tímabilið eftir var svo tekið í notkun kerfið sem notast er við í dag. Það er vægast sagt flókið að útskýra þetta kerfi. Liðin spila öll 26 leiki, en svo skiptist deildin í tvennt.

Það eiga öll lið dönsku úrvalsdeildarinnar eftir að spila tvo leiki, nema AGF og Randers (liðin sem mætast í kvöld), áður en deildinni verður skipt í tvennt. Efstu sex liðin fara í úrslitakeppni og liðin í sjöunda til 14. sæti fara í aðra úrslitakeppni.

Í úrslitakeppni sex efstu liðanna spila liðin við hvort annað aftur heima og að heiman. Liðið sem er efst eftir úrslitakeppnina verður danskur meistari og fer í forkeppni Meistaradeildarinnar. Liðið í öðru sæti fer í forkeppni Evrópudeildarinnar. Liðið sem endar í þriðja sæti fer í umspilsleik um annað sæti í forkeppni Evrópudeildarinnar. Ef liðið sem vinnur danska bikarinn endar í einu af efstu þremur sætunum þá fer liðið sem endar í fjórða sæti í umspilsleikinn. Stigin úr fyrstu 26 leikjum deildarinnar flytjast yfir í úrslitakeppnina og því er Midtjylland í mjög ákjósanlegri stöðu.

En hvað með liðin í sjöunda til 14. sæti? Þau fara nefnilega í aðra úrslitakeppni, sem við köllum úrslitakeppni tvö hér með, þar sem eru tveir fjögurra liða riðlar. Liðin í riðlunum spilar innbyrðis heima og að heiman. Tvö efstu lið riðlanna spila svo í útsláttarkeppni gegn hvort öðru þar sem sigurvegarinn fer í umspilsleikinn um sæti í forkeppni Evrópudeildarinnar. Ef svo vill til að bikarmeistaraliðið tekur þátt í úrslitakeppni tvö og endar á meðal tveggja efstu liða í sínum riðli, þá tekur það ekki þátt í útsláttarkeppninni. Það lið sem átti að vera mótherji þess fer þess í staðinn beint í úrslitaeinvígið í útsláttarkeppninni.

Liðin sem enda í tveimur neðri sætunum í riðlunum í úrslitakeppni tvö fara í fall-úrslitakeppni við lið úr B-deild þar sem barist er um sæti í úrvalsdeild.

Nánar er hægt að lesa um þetta flókna kerfi hérna.

Íslensku leikmennirnir
Í dönsku úrvalsdeildinni eru hvorki meira né minna en átta leikmenn ef miðað er við þá sem hafa verið í aðalliðshóp á þessu tímabili.

Mikael Neville Anderson leikur með toppliði Midtjylland. Mikael er uppalin í Danmörku, en hann kaus að spila fyrir íslenska landsliðið. Kantmaðurinn hefur á þessu tímabili komið við sögu í 20 deildarleikjum og skorað fjögur mörk.

Ragnar Sigurðsson er genginn aftur í raðir FC Kaupmannahafnar. Landsliðsmiðvörðurinn lék með liðinu frá 2011 til 2014, en er nú kominn aftur og ætlar hann að hjálpa liðinu í baráttunni sem framundan er.

Jón Dagur Þorsteinsson leikur með AGF í Árósum. Kantmaðurinn efnilegi er á sínu fyrsta tímabili með AGF, en það hefur gengið vel hjá honum. Hann hefur skorað fimm mörk í 18 deildarleikjum hjá AGF sem er í þriðja sæti. Hjörtur Hermannsson og félagar í Bröndby eru í fjórða sæti, stigi eftir AGF.

Frederik Schram er varamarkvörður Lyngby og Aron Elís Þrándarson er tiltölulega nýgenginn í raðir OB. Eggert Gunnþór Jónsson og Ísak Óli Ólafsson eru svo á mála hjá SönderjyskE.

Leikmenn sem gaman er að fylgjast með
Í deildinni er fullt af áhugaverðum leikmönnum og ágætis magn af ungum og upprennandi leikmönnum.

Í toppliði Midtjylland er varnarmaðurinn Alexander Scholz lykilmaður. Hann var hluti af liði Stjörnunnar árið 2012 og hefur ferill hans náð flottum hæðum síðan þá. Hann lék fyrir Lokeren, Standard Liege og Club Brugge í Belgíu áður en hann sneri aftur heim til Danmerkur árið 2018 og samdi við Midtjylland þar sem hann er eins og áður segir lykilmaður í dag. Mikael Neville spilar yfirleitt á vinstri kanti, en á hægri kantinum er Ástralinn Awer Mabil sem er virkilega skemmtilegur leikmaður.

FC Kaupmannahöfn er með mjög flottan leikmannahóp og er þeirra vinsælasti leikmaður Viktor Fischer, sem var eitt sinn talinn einn efnilegasti leikmaður heims þegar hann var í Ajax. Hann er kominn aftur heim eftir meðal annars stopp hjá Middlesbrough á Englandi. Sóknarmaðurinn Dame N'Doye er einnig mjög vinsæll í Kaupmannahöfn, en hann er orðinn 35 ára gamall. Þá er bakvarðarsveit FCK mjög skemmtileg, en hana skipa meðal annars Guillermo Varela, fyrrum leikmaður Manchester United, og Bryan Oviedo, fyrrum leikmaður Sunderland.

Patrick Mortensen er sóknarmaður í liði AGF sem virðist alltaf skila mörkum. Það er verkefni fyrir Jón Dag að finna hinn hávaxna Mortensen í teignum. Simon Hedlund er fjölhæfur sænskur leikmaður sem er mjög mikilvægur fyrir lið Bröndby og í liði Nordsjælland eru miklar vonir bundnar við miðjumanninn Mikkel Damsgaard, sem er 19 ára og á leið til Sampdoria á Ítalíu eftir tímabilið.

Lucas Andersen í AaB Álaborg er virkilega hæfileikaríkur sóknarsinnaður miðjumaður sem hefur skorað níu mörk í 22 leikjum á þessu tímabili. Hann ætti í raun að vera í sterkara liði, en hann lék áður fyrr með Ajax í hollensku úrvalsdeildinni og var þar í unglingaliðum, sem og í aðalliðinu. Sander Svendsen er framherji sem gæti örugglega verið í sterkara liði, en hann leikur með OB og hefur skorað níu mörk í 20 leikjum. Svendsen hefur leikið með öllum yngri landsliðum Noregs og er fyrrum leikmaður Molde.

Að lokum er hér nefndur sjálfur Pyry Soiri, þjóðhetja á Íslandi með meiru. Pyry er hrikalega vinsæll hér á landi eftir að hann skoraði mark Finnlands í 1-1 jafntefli gegn Króatíu í undankeppni HM 2018. Það mark kom Íslandi í kjörstöðu að komast á HM, sem við gerðum svo. Pyry leikur með Esbjerg sem er í fallbaráttu í Danmörku.

Hver á útsendingaréttinn á Íslandi?
Viaplay er með réttinn hér á landi, en þeir byrja að sýna frá leikjum deildarinnar þann 1. júní.

Næstu leikir:

Í dag:
17:00 AGF - Randers

Á morgun:
17:00 Silkeborg - Nordsjælland

31. maí:
16:00 Esbjerg - AaB

1. júní:
12:00 Randers - Hobro
14:00 Midtjylland - Horsens
16:00 Lyngby - FC Kaupmannahöfn
18:00 AGF - OB

2. júní:
17:00 Bröndby - SönderjyskE

Athugasemdir
banner
banner
banner