Liverpool og Man Utd skoða Kolo Muani - Rashford of dýr fyrir PSG - Tekur Heitinga við WBA?
   mán 28. október 2024 17:51
Guðmundur Aðalsteinn Ásgeirsson
Hringnum lokað hjá Láka - „Í hjartanu var þetta rétti tíminn"
Þorlákur Árnason.
Þorlákur Árnason.
Mynd: ÍBV
Mættur til Eyja eftir dvöl í Portúgal.
Mættur til Eyja eftir dvöl í Portúgal.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
ÍBV fagnar marki.
ÍBV fagnar marki.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
„Ræturnar eru þar (í Eyjum). Pabbi keypti bát og við fluttum til Vestmannaeyja fjölskyldan árið 1975. Ég flutti síðan til baka 1981 og fór í Fram," sagði Þorlákur Árnason í útvarpsþættinum Fótbolti.net síðasta laugardag.

Þorlákur var nýverið ráðinn þjálfari ÍBV sem leikur á nýjan leik í Bestu deildinni næsta sumar.

„Ég á svona ljúfsárar minningar (frá Vestmannaeyjum) því pabbi minn átti bát sem sökk 1979 og það voru fjórir menn sem fórust, en pabbi lifði af. Það breytti öllu í okkar fjölskyldu en pabbi gat ekki verið til sjós eftir það. Við fluttum svo í bæinn. Það er rétt orðað, ég er að loka hringnum," sagði Þorlákur.

Þorlákur, betur þekktur sem Láki, er 55 ára gamall og hefur starfað víða um heim síðustu ár. Hann starfaði síðast sem aðalþjálfari hjá Damaiense í portúgalska kvennaboltanum en þar áður þjálfaði hann Þór í Lengjudeildinni.

Fyrir það starfaði Láki meðal annars sem yfirmaður akademíu Brommapojkarna í Svíþjóð og yfirmaður fótboltamála hjá fótboltasambandinu í Hong Kong.

Láki tekur við þjálfarastarfinu hjá ÍBV af Hermanni Hreiðarssyni, sem stýrði Eyjamönnum til sigurs í Lengjudeildinni í sumar.

„Ég var að vonast til að geta verið 1-2 mánuði í 'chillinu' en þegar þetta kom upp... það hefur komið nokkrum sinnum til tals að fara til Vestmannaeyja. Í hjartanu var þetta rétti tíminn," segir Láki en hann er spenntur fyrir því að takast á við verkefnið í Vestmannaeyjum.

„Ég skil með væntingarnar og sérstaklega hjá eldri kynslóðinni, en það eru breyttir tímar. Auðvitað er ÍBV komið upp og við stefnum á að vinna hvern einasta leik. Þetta verður það frambærilegt lið að við eigum að geta staðið í öllum liðum."

Það var mikil ánægja með þetta
Láki segir að fjölskyldan fari ekki með honum til Eyja. „Hafdís er ekki að fara að flytja. Hún hefur verið íþróttakennari í Fjölbrautaskólanum í Ármúla með systur sinni í 30 ár held ég. Það er ekki að fara að breytast."

„Það var annar möguleiki í Asíu sem ég var að skoða. Það var mikil ánægja með þetta. Hún á fullt af handboltavinkonum í Vestmannaeyjum," sagði Láki.

Allt viðtalið má hlusta á í spilaranum hér fyrir neðan en þar ræðir Láki meðal annars um síðustu ár í fótboltanum.
Útvarpsþátturinn - Láki og leikurinn stóri
Athugasemdir
banner
banner