Það var greint frá því í upphafi þessa mánaðar hér á Fótbolti.net að Perry Mclachlan væri að taka við kvennaliði Aftureldingar. Félagið hefur nú staðfest tíðindin.
Hann tekur við af Alexander Aroni Davorsyni en það var staðfest í síðasta mánuði að hann yrði ekki áfram hjá félaginu ásamt Bjarka Má Sverrissyni og Ruth Þórðar Þórðardóttur.
Perry skrifar undir samning við Aftureldingu út árið 2025. Hann hefur stýrt æfingum liðsins undanfarin mánuð og er mikil ánægja innan félagsins með þessa ráðningu.
Perry hóf að þjálfa á Íslandi árið 2019 sem aðstoðarþjálfari og markmannsþjálfari karlaliðs Þórs en hann færði sig svo í að vera aðstoðarþjálfari Þórs/KA og síðar aðaþjálfari liðsins. Hann þjálfaði síðast kvennalið KR í Lengjudeildinni fyrri hluta tímabilsins.
Félagið vinnur nú í því að ráða teymi í kringum Perry.
„Afturelding lýsir yfir ánægju þess að hafa komist að samkomulagi að Perry leiði uppbyggingu meistaraflokkskvenna næstu árin og bíður hann hjartanlega velkominn í Mosfellsbæinn og vonast eftir löngu og farsælu samstarfi," segir í tilkynningu frá félaginu.