Simons orðaður við Man Utd - Calafiori færist nær Arsenal - West Ham hefur áhuga á Tomori
   mið 30. janúar 2013 09:00
Hafliði Breiðfjörð
Pistill: Pistlar á Fótbolta.net eru viðhorf höfundar og þurfa ekki endilega að endurspegla viðhorf vefsins eða ritstjórnar hans.
240 manna hópferð Arsenal stuðningsmanna (Myndir)
Hafliði Breiðfjörð
Hafliði Breiðfjörð
Hópurinn í stúkunni eftir leik.
Hópurinn í stúkunni eftir leik.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Ray Parlour heiðraði aðal stuðningsmann Arsenal á Íslandi.
Ray Parlour heiðraði aðal stuðningsmann Arsenal á Íslandi.
Mynd: Þorgrímur Hálfdánarson
Kjartan Björnsson stofnandi Arsenal klúbbsins á leiðinni á leikinn.
Kjartan Björnsson stofnandi Arsenal klúbbsins á leiðinni á leikinn.
Mynd: Stefán Hilmarsson
Tony Adams naut félagsskaps stuðnigsmanna Arsenal.
Tony Adams naut félagsskaps stuðnigsmanna Arsenal.
Mynd: Sigurpáll Ingibergsson
Á Gunnarspub fengu stuðningsmenn að handleika eftirlíkingu af enska FA bikarnum.
Á Gunnarspub fengu stuðningsmenn að handleika eftirlíkingu af enska FA bikarnum.
Mynd: Þorgrímur Hálfdánarson
Í góðum félagsskap með Thierry Henry.
Í góðum félagsskap með Thierry Henry.
Mynd: Þorgrímur Hálfdánarson
Undirritaður með bikarinn.
Undirritaður með bikarinn.
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Soffía Ólafsdóttir úr Garðinum 65 ára gömul amma með sinn hóp 26 manns, börn tengdabörn og barnabörn, mögnuð Arsenalfjölskylda.
Soffía Ólafsdóttir úr Garðinum 65 ára gömul amma með sinn hóp 26 manns, börn tengdabörn og barnabörn, mögnuð Arsenalfjölskylda.
Mynd: Ólafur Sæmundsson
Í október á síðasta ári fékk ég að fylgja stuðningsmannaklúbbi Arsenal til London til að sjá leik í ensku úrvalsdeildinni. Ferðin var einstök fyrir það að 240 stuðningsmenn liðsins voru með í för á Emirates leikvangnum á leikdeginum. En það var ekki bara leikurinn, heldur svo miklu meira sem gerði þessa ferð ógleymanlega fyrir alla Íslendingana sem ákváðu að skella sér.

Neðst í pistlinum má sjá fjölda mynda úr ferðinni.

Sigurður Enoksson, bakari í Grindavík og formaður klúbbsins var hugmyndasmiðurinn á bakvið þessa ferð sem ég ætla að segja frá í þessum pistli.

Tilefnið var 30 ára afmæli Arsenal klúbbsins á Íslandi en uppleggið hafði verið að fara með 150-200 manns í ferðina. Strax í upphafi var ljóst að hún yrði enn stærri en það því að í maí höfðu 221 skráð sig í ferðina og 30 voru komnir á biðlista.

Brottfarardagur var fimmtudagurinn 25. október og dagskráin sem hafði verið skipulögð fyrir okkur var svo þétt að allt varð að ganga upp.

Þegar ég mætti inn í Leifsstöð þennan morgun var sama hvert ég leit, ég sá Arsenal merkið um allan flugvöllinn. Klúbburinn hafði látið útbúa rauðan jakka með merki klúbbsins sem allir ferðalangarnir mættu í. Hópurinn var svo stór að skipta varð honum upp í tvær flugvélar, eina frá Icelandair og eina frá WOW air en 40 manns voru þegar farnir utan og sáu Meistaradeildarleik liðsins gegn Schalke kvöldið áður.

Flugið til London gekk vel og um leið og hópurinn fékk þau fyrirmæli að þar sem mikil dagskrá væri framundan yrði allt að ganga hratt fyrir sig. Fyrir utan flugstöðina á Gatwick biðu okkur rútur sem fluttu okkur á hótelið. Þar tékkuðum við okkur inn og fórum beint upp í rútu aftur sem flutti okkur á Emirates leikvanginn, heimavöll Arsenal, þar sem deginum skyldi verja.

Þegar þangað var komið fékk hópurinn að fara í skoðunarferð um leikvanginn sem er einn glæsilegasti leikvangur heims, ef ekki sá glæsilegasti. Fulltrúar félagsins gengu þá með okkur í litlum hópum um allan leikvanginn og sýndu okkur allt. Bílastæði leikmanna, VIP stúkuna og matsalinn sem Arsene Wenger notar þegar hann er ekki niðri við völlinn, búningsklefana, varamannabekkina og allt.

Greinilegt er á öllu að hvergi er til sparað til að hafa aðstöðuna eins fullkomna og hægt er, og meira að segja klefi útiliðsins er veglegur. Eftir skoðunarferðina var verslun félagsins svo opnuð fyrir hópinn og margir nýttu sér það til að bæta upp á Arsenal safnið sitt.

Þegar hér var komið við sögu var nóg eftir því hópnum var boðið í mat á leikvangnum sjálfum um kvöldið í félagsskap stjörnu úr sögu félagsins, Ray Parlour.

234 Íslendingar fylltu þá stóran sal á leikvangnum þar sem boðið var upp á dýrindismat. Í sjónvarpskerfinu í salnum var nokkrum sinnum spiluð kveðja frá Mikel Arteta fyrirliða liðsins til Íslendinganna þar sem hann þakkaði þeim fyrir komuna.

Í matnum hittist var hópurinn í fyrsta sinn allur samankominn á sama stað og sama tíma og þarna sá ég helstu Arsenal menn sem ég þekki, allt frá Kjartani rakara á Selfosi sem stofnaði klúbbinn árið 1982.

Yfir eftirréttinum hélt Ray Parlour svo tölu yfir mannskapnum og svaraði spurningum allra sem vildu spyrja að einhverju og mynduðust fjörugar umræður um Arsenal í dag og í gamla daga. Parlour sagði skemmtilega frá svo úr þessu var hin mesta skemmtun.

Á meðan þessu öllu stóð var kvennalandslið Íslands að spila úrslitaleik um sæti á Evrópumóti landsliða heima á Íslandi og greinilegt var að margir fylgdust með því sem var að gerast þar. Í lok leiksins var það svo Ray Parlour sem kom í kallkerfið og tilklynnti viðstöddum að Ísland væri komið á EM eftir sigur á Laugardalsvelli, við mikinn fögnuð vistaddra.

Eftir kvöldið var haldið upp á hótel þar sem menn hvíldu lúin bein eftir annasaman dag vitandi það að föstudagurinn væri frídagur. Föstudaginn nýtti fólk svo til ýmissa hluta, skemmtiferða, verslunarferða og skoðunarferða.

Laugardagurinn var leikdagur og þar bættust í hópinn þeir Íslendingar sem voru á leiknum en komu ekki á fimmtudaginn af ýmsum ástæðum. Farið var með rútum að leikvangnum og þaðan gekk hópurinn í átt að gamla leikvangnum, Highbury sem í dag hýsir íbúðir en heldur samt útliti vallarins. Þaðan var svo farið í gegnum mikla leikdags stemningu að Gunnars Pub þar sem hitað var upp fyrir leikinn.

Ég stoppaði við í stemmningunni þar og gekk svo í átt að vellinum með nokkrum stoppum, meðal annars í alvöru klúbbhúsi rétt við Highbury þar sem heitustu stuðningsmennirnir hittast fyrir leik og tippa.

Við fengum sæti fyrir aftan markið á Emirates leikvangnum sem er svo vel hannaður að öll sæti virðast vera góð sæti. Fyrir leikinn var myndavélinni beint að Íslendingunum og varpað á stóran skjá á vellinum og þakkað fyrir komuna.

Leikurinn sjálfur var ekki fjörugur og þó svo Arsenal hafi átt sín færi var markvörður QPR magnaður og hélt markinu hreinu. Það var ekki fyrr en í lokin að Mikel Arteta skoraði sigurmarkið við mikil fagnaðarlæti.

Hópurinn var eftir leik beðinn um að bíða í sætunum á meðan leikvangurinn tæmdist, en gekk svo fylktu liði niður og fékk sæti fyrir aftan varamannabekk Arsenal. Þar var tekið á móti okkur og Thomas Vermaelen heilsaði upp á mannskapinn. Arteta mætti svo óvænt sjálfur og heilsaði Íslendingunum áður en hann fór í sturtu.

Eftir leik skiptist hópurinn upp og fólk nýtti kvöldið hver á sinn hátt. Daginn eftir var heimferðardagur.

Vel heppnaðri ferð lokið og ljóst að Siggi bakari er góður í skipulaginu. Það verður að teljast ótrúlegt afrek að ná saman 240 Íslendingum sem fara saman á leik í enska boltanum.

Ég skemmti mér konunglega og það sama mátti sjá á andlitum allra hinna Arsenal mannana í ferðinni. Svona eiga fótboltaferðir að vera.
Athugasemdir
banner
banner
banner
banner
banner