„Tækifærið bauðst og Malmö leyfði mér að fara einhverra hluta vegna. Þá var lítið annað í stöðunni en að taka þetta tækifæri," sagði Kári Árnason við Fótbolta.net í dag eftir að hann skrifaði undir eins og hálfs árs samning hjá Omonia Nicosia á Kýpur.
Kári var í algjöru lykilhlutverki þegar Malmö varð sænskur meistari á síðasta tímabili. Það kom honum því í opna skjöldu þegar félagið var tilbúið að selja hann.
„Ég var mjög hissa en það er eins og það er. Svona er þessi heimur. Þetta er mjög einkennilegur heimur oft á tíðum og maður skilur ekki hvað er í gangi. Ég var fyrirliði liðsins í lok síðasta tímabils þegar Markus (Rosenberg) var meiddur og ég er stoltur af mínum afrekum hjá Malmö. Ég átti góðar stundir þar og ég á marga góða vini í liðinu. Þetta er eins og það er," sagði Kári en fleiri félög höfðu áhuga á honum.
„Það voru nokkrir möguleikar sem voru líka mjög spennandi. Á endanum var þetta mest freistandi," sagði Kári.
Bauðst að fara til Englands
Kári lék við góðan orðstír hjá Rotherham frá 2012 til 2015 og félagið vildi fá hann aftur í sínar raðir núna. Rotherham er í langneðsta sæti í Championship deildinni í dag og fall blasir við.
„Þeir eru náttúrulega ekki í frábærri stöðu. Ég hugsaði það alveg en það var ekki nógu heillandi. Það var líka áhugi frá öðrum enskum liðum en þú ert ekkert að lengja ferilinn með því að fara þangað, eins skemmtilegur og boltinn þar er."
Kári verður annar íslenski fótboltamaðurinn sem spilar á Kýpur en Haraldur Freyr Guðmundsson lék þar á sínum tíma.
„Þetta er kannski ekki sambærilegur bolti og í Skandinavíu. Þetta eru teknískir leikmenn og harkan ekki jafn mikil. Þetta er stærsti klúbburinn hérna og allt lítur vel út. Æfingaaðstaðan lítur vel út og völlurinn fínn. Síðan þekki ég til nokkra leikmanna og þjálfarans líka og það hjálpar," sagði Kári.
Á leið í úrslitakeppni
Omonia er með enska framherjann Matt Derbyshire og írska framherjann. Cilian Sheridan á sínum snærum en Kári hefur áður leikið með báðum leikmönnum. Hann lék með Derbyshire hjá Rotherham og Xheridan hjá Plymouth.
Þjálfari Omonia er John Carver fyrrum stjóri Newcastle. Omonia í 5. sæti í úrvalsdeildinni en eftir það tekur við úrslitakeppni.
„Það er ekki langt upp í annað sætið og það er nóg eftir af þessu. Það eru fimm leikir eftir af venjulegu deildinni og svo skiptist hún í helminga fyrir umspil. Þá er spilað bara á móti efstu sex liðunum. Þá eru þetta alvöru leikir þar sem eitthvað er undir. Ef þú nærð úrslit í þeim leikjum þá er allt mögulegt. Liðið er líka komið í 8-liða eða undanúrslit í bikarnum og það er stefnt að því að vinna hann til að tryggja sig inn í Evrópu. Þetta lítur ágætlega út," sagði Kári.
Athugasemdir