Olise, Branthwaite, Gutierrez, Guimaraes, Zubimendi og fleiri góðir í slúðurpakka dagsins
banner
   þri 30. mars 2021 11:08
Magnús Már Einarsson
Aron: Fáránlegt að búa til svona sögur
Icelandair
Aron Einar Gunnarsson
Aron Einar Gunnarsson
Mynd: Fótbolti.net - Hafliði Breiðfjörð
Aron Einar Gunnarsson, landsliðsfyrirliði, er ekki ánægður með ummæli Guðjóns Þórðarsonar fyrrum landsliðsþjálfara. Guðjón sagði frá því í hlaðvarpsþættinum The Mike Show að Gylfi hefði ekki gefið kost á sér í landsliðið vegna ágreinings við Eið Smára Guðjohnsen aðstoðarlandsliðsþjálfara.

Gylfi og eiginkona hans, Alexandra Helga Ívarsdóttir, eiga von á sínu fyrsta barni og það er ástæða þess að Gylfi dró sig úr hópnum. Gylfi svaraði sögu Guðjóns fullum hálsi í viðtali á 433.is í gær og Arnar Þór Viðarsson, landsliðsþjálfari gerði hið sama í viðtali á Fótbolta.net.

„Auðvitað hikstar liðið og þá er reynt að finna einhverja punkta til að tala um og ræða. Að koma með einhverja svona sögu út í loftið, sem er ekki rétt, finnst mér galið og kjánalegt," sagði Aron á fréttamannafundi í dag.

Hann telur að sagan hafi verið búin til í þeim tilgangi að vekja athygli á þessum nýja hlaðvarpsþætti.

„Það er allt í lagi að gagnrýna okkur, við eigum það skilið. að rýna til gagns er mikilvægt fyrir okkur. Að búa til sögur sem eru ekki sannar, til þess að auglýsa eitthvað, finnst mér fáránlegt."

Ísland mætir Liechtenstein í þriðja leikjum í undankeppni HM á morgun.

„Við erum ein heild og lið sem þarf að stíga upp. Við þurfum að gera það innan hópsins. Það gerir það enginn annar fyrir okkur. Þegar við erum ekki að standa okkur eins vel og við viljum þá þurfum við að sýna karakter eftir slæm úrslit. Við þurfum að sýna það inni á vellinum en ekki á blaðamannafundi með því að tala um hluti. VIð þurfum að sýna það í verki."

Fjarvera Viðars Arnar Kjartanssonar hefur verið mikið í umræðunni undanfarna daga og Aron var einnig spurður út í hans mál.

„Ég hef voðalega lítið um mál Viðars að segja. Auðvitað tökum við eftir fréttum og sjáum hvað er í gangi. Maður kemst ekki framhjá því," sagði Aron.
Athugasemdir
banner
banner